Innlent

Óvæntur fornleifa-fundur í Urriðakoti

Í Urriðakoti Fornleifafundurinn fór fram úr björtustu vonum fornleifafræðinga.mynd/ragnheiður traustadóttir
Í Urriðakoti Fornleifafundurinn fór fram úr björtustu vonum fornleifafræðinga.mynd/ragnheiður traustadóttir
Mun umfangsmeiri fornminjar hafa komið í ljós í uppgreftri í Urriðakoti, væntanlegu byggingarsvæði í Garðabæ, en sérfræðingar gerðu ráð fyrir. Við uppgröftinn hafa fundist minjar frá landnámi allt fram á miðaldir en Urriðakots er fyrst getið í heimildum mun síðar, eða á 16. öld.

Fornleifarannsóknir hafa staðið yfir í Urriðakoti á síðustu árum vegna fyrirhugaðra framkvæmda á svæðinu, en árið 2006 fólu bæjaryfirvöld í Garðabæ Fornleifastofnun Íslands að fullvinna aðalskráningu á fornleifum innan bæjarmarkanna.

Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur segir fundinn hafa komið verulega á óvart, enda á Urriðakot sér ekki langa sögu í heimildum en bæjarins er fyrst getið á 16. öld. „Fyrsta könnun var gerð í Urriðakoti 2007 en í fyrra átti að klára verkefnið. „Þá ákvað ég að opna á milli svæðanna sem voru til skoðunar. Ekkert sást á yfirborði og engar heimildir eru um eitt eða neitt á svæðinu en þarna fannst glæsilegt fjós frá landnámstíð.“

Ragnheiður segir að við uppgröftinn hafi einnig fundist skáli, geymsla, búr og soðhola frá landnámi fram á 11. öld en nánari aldursgreining þarf að fara fram til að hægt sé að segja hvort minjarnar séu frá fyrstu tíð landnáms.

Frá miðöldum – eða rétt eftir 1226 – hafa þá fundist leifar af búri, eldhúsi og skemmu, en ekki hefur komið í ljós neitt íveruhús frá þeim tíma en það kann að hafa staðið ofan við uppgraftarsvæðið.

Varðveisluskilyrði eru ekki góð í Urriðakoti þannig að lífrænar leifar varðveitast illa. Fáir en merkilegir gripir hafa fundist á svæðinu, fyrst og fremst snældusnúðar, annar skreyttur og hinn með rúnum. Fátítt er að finna gripi með rúnaristum á Íslandi. Auk þess hafa fundist tvær perlur frá víkingaöld, bökunarhellur, brýni, innflutt frá Noregi, járnhnífar, naglar og ýmsar bronsþynnur, að sögn Ragnheiðar sem segir margt benda til að í Urriðakoti hafi verið seljabúskapur en ekki föst búseta, en ekkert sel hefur verið að fullu rannsakað á Íslandi.

Mannvistarleifunum í Urriðakoti verður gert hátt undir höfði í framtíðinni þó minjarnar sjálfar verði þar ekki áfram. Jafnvel verður það gert með tenginu við Hofstaði, minjagarðinn í Garðabæ.

Ragnheiður heldur fyrirlestur um uppgröftinn í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar klukkan þrjú í dag.svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×