Innlent

Ekki einhliða riftunarákvæði

Hörður Vilberg
Hörður Vilberg
Talsmaður Samtaka atvinnulífsins (SA) segir ekki rétt að samtökin hafi látið setja ákvæði í nýgerða kjarasamninga þess efnis að þau geti rift samningunum einhliða fyrir 22. júní.

 

Í athugasemd sem Hörður Vilberg hjá SA sendi Fréttablaðinu segir að í kjarasamningunum sé ákvæði þess efnis að samningsaðilar geti ákveðið að framlengja svokallaðan aðfararsamning til 31. janúar 2012 ef þeir komast að því fyrir 22. júní að forsendur fyrir þriggja ára samningum séu ekki lengur fyrir hendi. Þetta geti til dæmis átt við ef stjórnvöld standi ekki við sín fyrirheit.

 

Aðfararsamningurinn sem gerður var 5. maí gilti til 22. júní og framlengdi alla kjarasamninga til þess dags. Eftir samþykkt aðfararsamningsins skyldu launþegar fá 50 þúsund króna eingreiðslu.

 

Ef til þess kæmi að samningurinn yrði framlengdur tækju aðrar breytingar sem samið var um gildi 31. janúar, fyrir utan 15 þúsund króna álag á desemberuppbót 2011 og tíu þúsund króna álag á orlofsuppbót 2011.

 

SA segir að ASÍ hafi lagt mikla áherslu á að geta með þessu móti tryggt félagsmönnum sínum launahækkanir til eins árs ef forsendur brystu fyrir þriggja ára samningum. Það hafi verið óháð öllum skoðunum SA á áformum stjórnvalda um breytingar á kvótakerfinu.

- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×