Innlent

Ótímabær dauðsföll yfir 700 síðustu 15 ár

Forsvarsmenn SÁÁ fullyrða að í óefni stefni vegna niðurskurðar á fjárveitingum.nordicphotos/getty
Forsvarsmenn SÁÁ fullyrða að í óefni stefni vegna niðurskurðar á fjárveitingum.nordicphotos/getty
Guðbjartur Hannesson
Ótímabær dauðsföll hjá fíklum sem eru yngri en 55 ára eru rúmlega 700 á síðastliðnum fimmtán árum, samkvæmt gagnagrunni sjúkrahússins á Vogi. Síðustu tíu ár hafa 47 einstaklingar fallið frá árlega. Yfirlæknir á Vogi segir að meðferðarstarf sé á leiðinni áratugi aftur í tímann vegna niðurskurðar stjórnvalda. Því hafnar velferðarráðherra.

Í nýjasta tölublaði SÁÁ blaðsins sem kom út á dögunum segir Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, að stjórnvöld gefi „hryllilegri stöðu í meðferðarmálum ekki gaum“.

Þórarinn segir að í ljósi niðurskurðar stjórnvalda megi lítið út af bera á stofnunum SÁÁ. Meðferðarstarf á Íslandi sé að færast aftur um áratugi.

Á síðum blaðsins kemur fram að á áttunda hundrað manns hafa látið lífið vegna fíknar sinnar fyrir 55 ára aldur. Árin 2000, 2005 og 2007 voru ótímabær dauðsföll yfir fimmtíu.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherrasegir að starf SÁÁ sé ómissandi og þjóðhagsleg nauðsyn en um leið hafi aldrei komið önnur skilaboð frá SÁÁ síðan hann hóf að starfa í stjórnmálum en að stofnunin væri fjársvelt. Hann segir það ekki standast skoðun að meðferðarstarfi verði skotið áratug eða áratugi aftur í tímann með þeim niðurskurði sem nauðsynlegt var að ráðast í. Guðbjartur vill samstarf stjórnvalda og SÁÁ um að gera eins mikið úr því fé sem til málaflokksins rennur.

Guðbjartur segir að þrátt fyrir jákvæðar breytingar á mörgum mælikvörðum eftir hrun þá geti það snúist við þegar frá líður. „Við verðum að vera á varðbergi, ekki síst hvað varðar líðan barna og ungs fólks“, segir Guðbjartur.

Í SÁÁ blaðinu bendir Þórarinn Tyrfingsson á að fólki yfir fimmtán ára hafi fjölgað um 40 þúsund síðastliðinn áratug og álagið á stofnanir og starfsfólk SÁÁ því aukist. Á sama tíma séu fjárframlög til SÁÁ komin niður í það sem þau voru árið 2000. Tölfræðin sem nær til ótímabærra dauðsfalla sýnir að hlutfall þeirra sem eru 20-30 ára er hátt.

Guðbjartur segir ungt fólk vera áhættuhóp í kreppu en það sé heimsvandi. „Við erum ekki að upplifa það öðruvísi en aðrir. Við verðum að standa vaktina, bæði stjórnvöld og SÁÁ. En það snýst ekki um umræðu um upphæðir heldur skipulag og hvernig við nýtum þá peninga sem við höfum.“

svavar@frettabladid.is

Þórarinn Tyrfingsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×