Innlent

Óttast drykkjulæti á göngugötu

Vandinn vegna drukkins fólks er ærinn þótt það fái ekki aukið rými til að ganga um Laugaveginn, segir stjórn Íbúasamtaka miðborgar. Mynd/Hari
Vandinn vegna drukkins fólks er ærinn þótt það fái ekki aukið rými til að ganga um Laugaveginn, segir stjórn Íbúasamtaka miðborgar. Mynd/Hari
„Íbúar hafa áhyggjur af því að aukið rými fyrir fótgangendur að næturlagi um helgar muni auka á fjölda drukkins skara fólks,“ segir stjórn Íbúasamtaka miðborgar í umsögn um þá tillögu að breyta Laugaveginum í göngugötu.

 

Stjórn Íbúasamtakanna segir jákvætt að minnka umferð bíla í miðborginni og að gerð sé tímabundin tilraun með Laugaveginn sem göngugötu en setur þó nokkra fyrirvara við málið. Sérstaklega óttast hún að breytingin leiði til aukins ónæðis af ölvuðu fólki. Sá vandi sé ærinn fyrir.

 

„Spurning er því hvort rétt sé að hleypa bílaumferð um götuna eftir miðnætti til næsta morguns. Sú hugmynd er einungis sett fram vegna þess ófremdarástands sem fyrir er, en væri við eðlilegar aðstæður ekki raunhæf,“ segir stjórnin, sem kveður mikilvægt að efla löggæslu gangandi eða hjólandi lögreglu þegar lögreglubílar aka ekki um Laugaveginn.

 

Þá telur stjórn íbúasamtakanna mikilvægt að á tilraunatímanum séu metin áhrif á umferð um nálægar götur, á verslun og líðan íbúa og vegfarenda. „Við Laugaveginn býr fólk sem þarf aðgang að húsum sínum,“ segir stjórnin og bætir við að hún telji ekki að loka eigi götunni með föstum blómakerum heldur einhvers konar hliði sem íbúar kæmust um ásamt slökkviliði og lögreglu. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×