Innlent

Yfir 200 milljónir til Breiðavíkurdrengja

Flestir vistmenn hafa samþykkt sáttaboðin sem þeim voru send. Meðalbætur til vistmanna eru um 3,6 milljónir. Alls barst 121 umsókn um bætur. Flestir hafa samþykkt sáttaboðin og er greiðslum að mestu lokið. Helmingur á Kumbaravogi sótti um og meirihlutinn úr Heyrnleysingjaskólanum.
Flestir vistmenn hafa samþykkt sáttaboðin sem þeim voru send. Meðalbætur til vistmanna eru um 3,6 milljónir. Alls barst 121 umsókn um bætur. Flestir hafa samþykkt sáttaboðin og er greiðslum að mestu lokið. Helmingur á Kumbaravogi sótti um og meirihlutinn úr Heyrnleysingjaskólanum. Mynd/Stefán
Greiddar hafa verið á þriðja hundrað milljónir króna úr ríkissjóði til Breiðavíkurdrengja frá því að greiðslur hófust í aprílbyrjun. Meðalbæturnar til vistmanna eru um 3,6 milljónir króna, að sögn Halldórs Þormars Halldórssonar, lögfræðings hjá Sýslumanninum á Siglufirði sem ákvarðar bæturnar.

 

„Þessum greiðslum er að mestu lokið. Alls barst 121 umsókn en vistmenn á Breiðavíkurheimilinu, sem starfrækt var frá 1952 til 1979, voru að minnsta kosti 155 en jafnvel 159,“ greinir Halldór frá. Hann segir sáttaboð hafa verið send út í mars en þar sem enn hafi ekki borist svör við þeim öllum sé óljóst um niðurstöðu í nokkrum málum. Eftir er að afgreiða fjórar umsóknir.

 

„Einn einstaklingur hefur þegar sent erindi til úrskurðanefndar um sanngirnisbætur sem getur ákvarðað hærri bætur eða talið sáttaboð fullnægjandi. Óvíst er um nokkur sáttaboð en þau eru innan við tíu. Aðrir hafa samþykkt sáttaboðin.“

Að sögn Halldórs voru greiddar tvær milljónir strax til hvers einstaklings.

 

„Samkvæmt lögum ber að geyma allt umfram tvær milljónir í 18 til 36 mánuði. Það fengu þó nokkrir sáttaboð upp á fjórar milljónir króna eða meira, en það er ekki útilokað að sumir fái síðar viðbótarbætur, hafi þeir orðið fyrir miska á öðrum vistheimilum.“

 

Áætlað var að heildarbætur gætu numið 300 milljónum króna. „Þessi tala hefur verið svolítið á reiki þar sem fjárþörfin hefur verið metin svolítið eftir því sem málið hefur unnist. Þetta er á sérstökum fjárlagalið. Tengiliður vistheimila er á sama fjárlagalið. Rannsóknarnefndin er á öðrum fjárlagalið,“ tekur Halldór fram. Hann getur þess jafnframt að sýslumannsembættið á Siglufirði hafi ekki fengið neina aukafjárveitingu vegna þessa verkefnis.

 

Á næstu dögum verða send sáttaboð til þeirra sem voru vistmenn á Kumbaravogi. „Vistmenn þar voru 32 en 15 sóttu um bætur. Sumir vistmanna greindu frá harðræði en aðrir sögðu vistina hafa verið ágæta.“

 

Alls hafa 120 af þeim 175 sem voru í Heyrnleysingjaskólanum sótt um bætur, segir Halldór. Auglýst verður í sumar vegna bóta til þeirra sem dvöldu í Reykjahlíð og á Bjargi.

 

ibs@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×