Erlent

Mladic náðist fyrir tilviljun

Ratko Mladic var vakandi þegar lögregluna bar að garði klukkan fimm að morgni. Mynd/AFP
Ratko Mladic var vakandi þegar lögregluna bar að garði klukkan fimm að morgni. Mynd/AFP
Þegar hópur lögreglumanna réðst inn í íbúðarhús í bænum Lazareva klukkan fimm á fimmtudagsmorgun vissu þeir ekki hvort Ratko Mladic, fyrrverandi yfirmaður herliðs Bosníu-Serba, væri þar staddur.

 

Lögreglumennirnir gerðu samtímis leit í fjórum íbúðarhúsum þar í þorpinu, en sams konar leit hafa þeir gert reglulega síðustu fjögur árin víðs vegar um Serbíu í von um að rekast á þennan 69 ára gamla mann, sem eftirlýstur er fyrir verstu stríðsglæpi Evrópu síðan í seinni heimsstyrjöldinni.

 

Þrír lögreglumenn, sem ræddu við fréttastofuna AP, sögðu Mladic strax hafa viðurkennt hver hann væri, hálfhvíslandi að vísu. Hann hafi verið fölur og ellilegur, með tvær skammbyssur á sér en afhenti þær lögreglunni umyrðalaust.

 

Mladic var vakandi þegar lögregluna bar að garði, þótt flestir þorpsbúar hafi verið í fastasvefni. Hann hafði átt erfitt með að sofa vegna verkja í líkamanum, sem hafa hrjáð hann lengi.

 

Hann hefur verið í felum hjá ættingjum sínum í þessu þorpi í tvö ár, taldi sig nokkuð öruggan þar. Serbnesk stjórnvöld höfðu heitið rúmlega 1.100 milljónum í fundarlaun hverjum þeim sem gæti vísað lögreglunni á Mladic, en enginn fær þau verðlaun vegna þess að lögreglan hafði enga vísbendingu fengið um að hann gæti leynst þarna.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×