Innlent

Vitum að dropinn holar steininn

Jóhanna K. Eyjólfsdóttir, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty
Jóhanna K. Eyjólfsdóttir, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty
Í Íslandsdeild Amnesty eru 11 þúsund félagar auk þess sem fleiri taka þátt í aðgerðum og styðja samtökin. „Upphaflega hugsunin í Amnesty var þessi alþjóðlega samstaða, að við gætum haft áhrif á líf fólks og hjálpað fólki þó að við hefðum aldrei séð viðkomandi og byggjum jafnvel í allt öðru landi," segir Jóhanna K. Eyjólfsdóttir, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty. „Við höfum séð gífurlegar breytingar í heiminum. Við búum núna við miklu betra mannréttindakerfi og eftirlitskerfi en þegar samtökin voru stofnuð. Það hafa tugir þúsunda verið leystir úr haldi og fengið lausn sinna mála vegna aðgerða Amnesty. En það eru náttúrulega enn óteljandi verkefni fram undan."

 

Amnesty reynir að vera í takt við tímann. Ný tækni skiptir máli í mannréttindabaráttunni segir Jóhanna, bæði í aðgerðum okkar hér á landi og einnig fyrir fólk sem stendur í ströngu í eigin réttindabaráttu eins og í Miðausturlöndum nú. „Upplýsingarnar sem við fáum frá þessum löndum koma í gegnum símana og netið."

 

Þegar samtökin byrjuðu kom fólk saman og handskrifaði bréf vegna mannréttindamála. Sums staðar er það enn gert en tímarnir hafa þó breyst. „Við byrjuðum með hjálparáköll í gegnum tölvupóst, þar sem félagar fá upplýsingar um þrjú mál og tengil þar sem hægt er að nálgast tilbúið bréf, prenta það út og senda. Þegar við byrjuðum með þetta þá áttu allir borðtölvur og prentara tengda við þær."

 

Í dag sé öldin önnur og fólk er hvar sem er með tölvurnar þegar það fær upplýsingar um nýjar aðgerðir. „Núna í júní opnum við nýja aðgerðasíðu, netákall. Þá fær fólk tilkynninguna, og getur enn prentað út og gert þetta sjálft, en hefur líka möguleika á að skrifa bara undir á netinu. Við sjáum um að koma því áfram." Að auki hefur SMS-aðgerðanet komið sér vel, en þá fær fólk sms með upplýsingum um ákveðin mannréttindamál sem verið er að berjast fyrir. Það sendir skeyti til baka og hefur þar með sett nafn sitt á undirskriftalista.

 

„Félagarnir hjálpa til, hver á sinn hátt. En hver aðgerð skiptir máli. Við vitum það að dropinn holar steininn. Það sem við viljum núna er alþjóðlegt ákall um breytingar. Hver og einn einstaklingur getur haft áhrif og skiptir máli. Við búum ekki á eylandi – okkar velferð tengist því að aðrir njóti líka réttinda."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×