Skoðun

Að flytja að heiman

Ingibjörg Rakel Bragadóttir skrifar
Þegar ég flutti að heiman flutti ég í íbúð með annarri konu. Okkur dreymdi um að við mundum búa saman þangað til ég færi á elliheimili. En hún flutti og fór í sambýli.

Svo fékk ég aðra konu til að búa með mér en það gekk ekki upp. Nú bý ég ein í íbúð á elleftu hæð með fallegu útsýni.

Á fimmtudögum fæ ég aðstoð með matarinnkaup. Og um kvöldið kemur maður sem aðstoðar mig við matargerðina. Mér finnst að við eigum að fá að ráða hvern við fáum inn á heimili okkar. Það er út af því að þeir sem sinna okkur senda bara fólk og okkur líkar kannski ekki við það.

Áður fyrr þá vann ég á vernduðum vinnustað bæði á Íslandi og í Danmörku. Í Danmörku var meira blandað á vinnustaðnum heldur en hér á Íslandi. Ég fór út árið 1977 og var þar í fimmtán ár. Ég gæti hugsað mér að búa með annarri manneskju sem mér líkar við og mætti hafa val um að búa með.

Faðir minn var framsýnn maður. Löngu áður en farið var að tala um kjarnaíbúðir sá hann fyrir sér að framtíðin fyrir mig væri að búa í íbúð og fá notendavæna aðstoð. Ég er búin að sækja um kjarnaíbúð. Þá er fólk til staðar ef á þarf að halda.




Skoðun

Sjá meira


×