Erlent

Óvæntur sigur auðkýfings

Vellauðugur þingmaður Bandalags græningja og bænda brosmildur að loknu kjöri. nordicphotos/AFP
Vellauðugur þingmaður Bandalags græningja og bænda brosmildur að loknu kjöri. nordicphotos/AFP
Andris Berzin var í gær kosinn forseti Lettlands. Það er þing landsins sem kýs forseta, og þurfti að kjósa tvisvar í gær því enginn fékk meirihluta í fyrri umferð.

Berzin er 66 ára gamall fyrrverandi bankastjóri, auðugur mjög en situr á þingi fyrir Bandalag græningja og bænda, sem er einn þeirra hægri- og miðjuflokka sem eiga aðild að samsteypustjórn Valdis Dombrovskis forsætisráðherra.

Fyrir fáeinum dögum þótti núverandi forseti, Valdis Zatler, öruggur um endurkjör, en spillti möguleikum sínum um síðustu helgi þegar hann boðaði til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort rjúfa ætti þing og gagnrýndi þingið jafnframt harðlega.

Zatler sagði þingmennina upp til hópa veika fyrir mútum og spillingu. Hann sagðist jafnframt gera sér fulla grein fyrir því að með þessu myndi hann spilla fyrir möguleikum sínum á endurkjöri.

Lettland fór illa út úr kreppunni, þurfti að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fara út í strangar aðhaldsaðgerðir.

Barzin segist ekki ætla að nota embættið til að skara eld að köku auðmannastéttar landsins.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×