Innlent

Segja tafir á málsmeðferð ámælisverðar

fjölmargar ástæður málareksturs
Dæmi um nýlegt mál sem kom til álita úrskurðarnefndar er kæra bónda vegna lyktarmengunar frá svínarækt.
fréttablaðið/gva
fjölmargar ástæður málareksturs Dæmi um nýlegt mál sem kom til álita úrskurðarnefndar er kæra bónda vegna lyktarmengunar frá svínarækt. fréttablaðið/gva
Samtök atvinnulífsins gagnrýna úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir (ÚHM) fyrir að virða ekki tímamörk í lögum um afgreiðslu mála. Nefndin skilar úrskurðum sínum mánuðum og jafnvel árum eftir að lögbundnum tímamörkum er náð. Innan við helmingur erinda þeirra 24 nefnda sem hafa skilgreindan frest í lögum var afgreiddur á réttum tíma á nokkurra ára tímabili. Þetta er niðurstaða umboðsmanns Alþingis.

SA tók saman hversu langan tíma það tekur ÚHM að kveða upp úrskurði í málum sem þangað er beint. Aðeins í eitt skipti af síðustu tuttugu úrskurðum hefur nefndin skilað niðurstöðu innan lögbundinna tímamarka. Að meðaltali tók það nefndina fjörutíu vikur að kveða upp úrskurð sinn, en í þremur af tuttugu málum sem SA skoðaði féll úrskurður ekki fyrr en eftir 16 til 39 mánuði. Lögbundinn frestur er fjórar vikur í hefðbundnum málum en átta vikur í viðameiri málum. Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður nefndarinnar, segir að tafirnar eigi sér eðlilegar skýringar. „Sannleikurinn er sá að það er erfitt að halda tímarammann nema málið sé mjög einfalt en gangur mála er misjafn, margra hluta vegna."

Í úrskurðum nefndarinnar kemur fram að annir starfsmanna skýri í sumum tilvikum ástæður tafa. Steinunn viðurkennir að nefndarmennirnir þrír hafi önnur störf með höndum. „En við höfum lagt áherslu á að stytta tímann sem fer í afgreiðslu mála, eða eins stuttan tíma og hvert mál leyfir. Þegar tafirnar verða mjög langar eru alltaf sérstakar ástæður fyrir því." Steinunn vill ekki tjá sig um það hvort löggjafinn hafi vanmetið hlutverk nefndarinnar við lagasetninguna.

Pétur Reimarsson, forstöðumaður hjá SA, hafnar því alfarið að það sé eðlilegt að einstök mál séu lengur en þrjú ár til skoðunar hjá nefndinni þegar skilafrestur er lengstur átta vikur. Hann segir það eðlilega kröfu að úrskurðarnefndir virði lög og reglur um málsmeðferð eins og krafist sé af einstaklingum og fyrirtækjum.

Ástæða þess að SA skoðaði afgreiðslutíma nefndarinnar er að fyrir þinginu liggur frumvarp um úrskurðarnefnd um auðlindamál sem mun hafa víðtækt hlutverk. „Við erum að benda þinginu á það að þessi nýja nefnd hafi burði, starfsfólk og peninga, til að gegna sínu hlutverki."- shá

Pétur Reimarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×