Innlent

Mikilvægt að sýna sjálfsaga

Árni Páll Árnason
Árni Páll Árnason
Mikilvægt er að sýna sjálfsaga til að halda utan um ríkisfjármálin þegar áætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) rennur sitt skeið í ágúst og sýna að hægt sé að taka á strúktúrveikleikum í íslensku efnahagslífi, að sögn Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra.

 

Stjórn AGS samþykkti í gær fimmtu endurskoðun efnahagsáætlunar sjóðsins og stjórnvalda á fundi sínum í Washington. Með samþykktinni geta stjórnvöld fengið aðgang að 25,7 milljarða króna láni sjóðsins og 73 milljarða króna lánalínu frá Norðurlöndunum.

 

Í endurnýjaðri viljayfirlýsingu sem stjórnvöld sendu AGS kemur fram að hagkerfið sé að taka við sér og að hagvöxtur verði í ár, sá fyrsti frá hruni. Í fyrri viljayfirlýsingum hefur verið gert ráð fyrir allt að þriggja prósenta hagvexti. Árni Páll segir spár hljóða upp á tveggja prósenta hagvöxt í ár en þrjú prósent á næsta ári.

 

„Efnahagsáætlun okkar næstu árin verður að miða að því að ná upp hagvexti til að vinna bug á atvinnuleysi,“ segir Árni Páll og leggur áherslu á að draga verði úr einhæfni, fákeppni og skorti á samkeppni auk þess að greiða fyrir fjárfestingu og nýsköpun til að efla útflutningsdrifinn hagvöxt.

 

„Hvert ár sem líður án þess að dragi verulega úr atvinnuleysi er mjög dýrt. Við þurfum fjögurra til fimm prósenta hagvöxt til að höggva í það að ráði.“ - jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×