Innlent

Kostar íslenska ríkið 29 milljónir

Norðurvíkingur fer fram undir stjórn Evrópuherstjórnar Bandaríkjanna en Landhelgisgæslan hefur umsjón með æfingunni. Mynd/GVA
Norðurvíkingur fer fram undir stjórn Evrópuherstjórnar Bandaríkjanna en Landhelgisgæslan hefur umsjón með æfingunni. Mynd/GVA
Á fimmta hundrað erlendra hermanna eru komnir til landsins til að taka þátt í heræfingunni Norðurvíkingi, sem hófst í gær. Kostnaður við æfinguna er áætlaður um 29 milljónir króna.

 

Þær erlendu þjóðir sem taka þátt í æfingunni greiða nær allan kostnað sjálfar. Kostnaður íslenskra stjórnvalda er vegna gistingar og matarkaupa fyrir hermennina, og rennur því til þjónustufyrirtækja á Suðurnesjum.

 

Unnið var hörðum höndum að því að undirbúa æfingar í lofti og á legi í gær, en eiginlegar æfingar hefjast ekki fyrr en eftir helgi, segir Hrafnhildur Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, sem sér um æfinguna.

 

Alls taka sextán orrustuþotur, þrjár eldsneytisvélar, tvær fjarskiptaflugvélar og þrjú varðskip þátt í æfingunni. Um 450 manns taka þátt. Á æfingunni verður megináhersla lögð á æfingar í lofti og á sjó.

 

Æfingin sem nú er hafin er þriðja heræfingin sem haldin er hér á landi frá því bandaríska varnarliðið hvarf af landi brott árið 2006.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×