Innlent

Ráðherra vill rökstuðning vegna boranaleyfis

Katrín Júlíusdóttir
Katrín Júlíusdóttir Mynd/Anton Brink
„Það er augljóst að það er eitthvað að í lagaumhverfinu ef þeir telja sig knúna til að komast að þessari niðurstöðu," segir Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra um veitingu rannsóknarleyfis í Grændal í Ölfusi. Orkustofnun veitti leyfi til rannsókna á jarðhita, grunnvatni, yfirborðsvatni og efnisnámum á rannsóknarsvæðinu.

 

Ráðherra hefur óskað eftir munnlegum rökstuðningi frá Orkustofnun og mun eiga fund um málið eftir helgi. Katrín segir mikilvægt að komast að því hvað knýi stofnunina til að komast að þessari niðurstöðu og boðar breytingar á lögum, komi í ljós að lögin kalli á úrskurðinn.

 

Katrín bendir á að Grændalur sé eitt þeirra svæða sem verði líklega skilgreind sem verndarsvæði í rammaáætlun og því skjóti skökku við að gefa út rannsóknarleyfi svo skömmu áður en áætlunin taki gildi.

 

Lög um rammaáætlun voru samþykkt á yfirstandandi þingi og þingsályktunartillaga mun líta dagsins ljós á næstu vikum, að sögn Katrínar. Ekki hefur ríkt full sátt um tillöguna meðal stjórnarflokkanna en ráðherra vonast til að samstaða ríki um tillöguna þegar hún kemur fram.

 

Katrín bendir einnig á að sveitarfélagið Ölfus hafi ekki sett rannsóknarboranir á skipulag og ólíklegt sé að það gerist, þar sem andstaða sé við röskun á svæðinu innan sveitarfélagsins.

 

„Allir aðilar verða að stíga varlega til jarðar þar til rammaáætlun er tilbúin. Þess vegna vil ég kanna hvort eitthvað er í lögum sem kallar á þennan úrskurð og mun grípa til ráðstafana ef svo er."

 

Katrín telur þó óljóst að hún nái að leggja fram lagabreytingar áður en rammaáætlun taki gildi. „Aðalatriðið er að við erum að koma okkur úr vondu kerfi á þessu sviði. Úr vondu lagaumhverfi sem hefur verið götótt og inn í lagaumhverfi rammaáætlunar þar sem tekið er mið af náttúrunni frá upphafi ferlisins."- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×