Erlent

Ratko Mladic neitar að svara ákærunum

Ratko Mladic sagði ákærurnar viðbjóðslegar og vildi ekki að þær yrðu lesnar upp, hvað þá að hann vildi lýsa sig sekan eða saklausan. Nordicphotos/AFP
Ratko Mladic sagði ákærurnar viðbjóðslegar og vildi ekki að þær yrðu lesnar upp, hvað þá að hann vildi lýsa sig sekan eða saklausan. Nordicphotos/AFP
Fylgst með Konur, sem misstu eiginmenn sína, feður eða syni í fjöldamorðunum í Srebrenica, fylgdust í gær með beinni sjónvarpsútsendingu frá dómstólnum í Haag. Veggir herbergisins eru þaktir myndum af fórnarlömbum fjöldamorðanna. nordicphotos/AFP
„Ég er Ratko Mladic og allur heimurinn veit hver ég er,“ sagði fyrrverandi yfirmaður herliðs Bosníu-Serba og vildi engu svara ákærum, sem hann sagði viðbjóðslegar.

 

Hann var í fyrsta sinn leiddur fyrir stríðsglæpadómstól Sameinuðu þjóðanna í Haag í gær, þar sem hann er ákærður fyrir verstu stríðsglæpi í sögu Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldar.

 

Hann virtist eiga erfitt með að nota hægri höndina. Réttarverðir studdu hann þegar hann stóð upp og hjálpuðu honum að setja á sig heyrnartól svo hann gæti heyrt serbneskan túlk þýða jafnóðum það sem sagt var í réttarsalnum.

Mladic sagðist vera alvarlega veikur en vildi ekki ræða veikindi sín nema fyrir luktum dyrum.

 

Ættingjar hans hafa sagt að hann hafi tvisvar fengið heilablóðfall á síðustu árum. Lögfræðingur Mladics í Serbíu hefur einnig sagt að hann hafi verið með eitlakrabbamein og bæði gengist undir uppskurð og fengið lyfjameðferð vegna þess árið 2009.

 

Alphons Orie, aðaldómari í málinu, boðaði framhald réttarhaldanna 4. júlí næstkomandi. Ef Mladic neitar aftur að svara ákærum, þá verður litið svo á að hann telji sig saklausan svo réttarhöldin geta þá hafist fyrir alvöru.

Búast má við að þau taki allmörg ár.

 

Ákæran á hendur honum er í ellefu liðum. Hann er ákærður fyrir fjöldamorðin í Srebrenica í júlí árið 1995, þegar hermenn undir hans stjórn myrtu um átta þúsund karlmenn og drengi. Hann er einnig ákærður fyrir að hafa stjórnað svonefndum þjóðernishreinsunum, þegar hermenn undir hans stjórn hröktu fólk frá þorpum og bæjum með grófu ofbeldi í Bosníustríðinu á árunum 1992-95. Þá er hann ákærður fyrir að hafa staðið fyrir ofsóknum, kúgun, pyntingum, nauðgunum á múslimum og Króötum í Bosníu, auk þess sem hann er ákærður fyrir að hafa tekið friðargæsluliða og hernaðareftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna í gíslingu. gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×