Viðskipti erlent

Risar horfa til verslananna

iceland-verslun Verslanir Iceland Foods eru rúmlega sjö hundruð talsins. Þær eru sagðar verpa gulleggjum enda er arður eigenda af rekstrinum mikill.
iceland-verslun Verslanir Iceland Foods eru rúmlega sjö hundruð talsins. Þær eru sagðar verpa gulleggjum enda er arður eigenda af rekstrinum mikill.
Búast má við harðri baráttu um bresku matvöruverslanakeðjuna Iceland Foods, að sögn dagblaðsins The Telegraph.

Stórverslanirnar Asda og Morrison hafa fengið sérfræðinga til liðs við sig til að undirbúa tilboð í 67 prósenta hlut skilanefndar gamla Landsbankans í verslanakeðjunni. Asda er önnur umsvifamesta verslun Bretlands en Morrison í fjórða sæti. Telegraph segir verðið geta numið 1,5 milljörðum punda, jafnvirði 280 milljarða króna.

Blaðið segir jafnframt forsvarsmenn annarra verslana bera víurnar í Iceland Foods. Þar á meðal sé bandaríska risakeðjan Walmart.

Þá telur blaðið ekki útilokað að Malcolm Walker, stofnandi og forstjóri Iceland Foods, reyni að kaupa matvörukeðjuna. Hann á um 26 prósenta hlut með öðrum stjórnendum og hefur áður lýst yfir áhuga á að eignast verslunina. Þá spillir ekki fyrir að eignarhlutinn veitir honum rétt til að bjóða gegn þeim sem á hæsta boðið í matvörukeðjuna. Fram kom á fundi skilanefndar og slitastjórnar Landsbankans fyrir skemmstu að stefnt væri að því að selja keðjuna fyrir áramót.- jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×