Innlent

Börn vilja ekki taka rítalín og fólk þorir ekki út í apótek

Ellen Calmon formaður ADHD-samtakanna segir fjölda félaga ósátta við að lyfjunum hafi nær eingöngu verið lýst sem dópi í fjölmiðlum. fréttablaðið/anton
Ellen Calmon formaður ADHD-samtakanna segir fjölda félaga ósátta við að lyfjunum hafi nær eingöngu verið lýst sem dópi í fjölmiðlum. fréttablaðið/anton
Stjórn ADHD samtakanna á Íslandi harmar þá umræðu sem hefur skapast í fjölmiðlum að undanförnu um misnotkun rítalíns og annarra metýlfenídat lyfja og telja hana einhliða.

Ellen Calmon, framkvæmdastjóri samtakanna, segir fólk með ADHD (ofvirkniröskun) farið að finna fyrir auknum fordómum í sinn garð og sumir séu jafnvel hættir að þora út í apótek eftir lyfjum. Börn neiti að taka lyfin sín af ótta við að verða álitin dópistar og fíklar.

„Eitt dæmi er drengur í framhaldsskóla í borginni sem hefur nú ekki tekið lyf í tvær vikur því hann vill ekki verða dópisti. Skólinn er að fara í vaskinn hjá honum því lyfin halda honum við efnið,“ segir Ellen og undirstrikar að langstærsti hluti fólks noti lyfin til lækninga. Þau tilvik þar sem misnotkun á sér stað séu vissulega meira áberandi og mjög sorgleg eins og sést hefur í fjölmiðlum að undanförnu.

Ríkið greiddi um 550 milljónir króna í fyrra vegna rítalíns og var um helmingi lyfjanna ávísað á fullorðna. Kostnaður ríkisins vegna rítalíns hefur aukist um 70 til 100 milljónir á ári hverju undanfarin ár, eins og fram kom í harðorðri grein Gunnars Smára Egilssonar, nýs stjórnarformanns SÁÁ. Í grein sinni, sem birtist á vef SÁÁ um síðustu helgi, gagnrýnir Gunnar Smári meðal annars starfsaðferðir geðlækna hér á landi og segir greiningu á ADHD oft byggja á tæpum grunni. Hann bendir á að fyrir fjórtán árum hafi ADHD meðal fullorðinna verið nær óþekkt vandamál hér á landi en nú sé fjöldi greindra orðinn eins mikill og raun ber vitni.

Ellen undrast mjög skrif Gunnars Smára og segist hafa brugðið mikið þegar hún las greinina.

„Hann segir nánast að ADHD sé hugarburður. Ég er stórhneyksluð á framburði hans,“ segir hún. „Geðlæknar eru líka margir hverjir gapandi yfir þessum skrifum.“

Í grein í Læknablaðinu frá árinu 2005 kemur fram að talið sé að 5 til 10 prósent barna og unglinga séu með ADHD hér á landi og um 4,5 prósent fullorðinna. Ellen segir lyf vera einu opinberu úrræðin sem fullorðnir geti nýtt sér, geðlæknar og sálfræðimeðferðir kosti mikið. Þá sé úrræðum fyrir framhaldsskólanemendur með ADHD verulega ábótavant og brottfall þeirra hátt. Samtökin kalla eftir betri úrræðum frá stjórnvöldum. sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×