Innlent

15 til 30% minni utanvegaakstur

Ökutæki geta myndað djúp för í jarðveg.Mynd/umhverfisstofnun
Ökutæki geta myndað djúp för í jarðveg.Mynd/umhverfisstofnun
Vísbendingar eru um að aðgerðir stofnana á vegum umhverfisráðuneytisins til að draga úr utanvegaakstri hafi borið árangur, að því er segir í frétt á vef ráðuneytisins.

Samkvæmt nýjum tölum frá landvörðum og lögreglustjóraembættum virðist hafa dregið úr utanvegaakstri um 15 til 30 prósent síðan farið var af stað í vinnu við að sporna við honum. Þó er tekið fram að eftirlitið sé ófullkomið og tölurnar því ekki óyggjandi. Enn fremur sé munur á svæðum og sums staðar sé þróunin í átt til hins verra.

Umhverfisráðuneytið og stofnanir þess hafa, ásamt hagsmunaaðilum og frjálsum félagasamtökum, unnið að því að koma fræðslu til vegfarenda með auglýsingum, bæklingum og fræðsluskiltum.

„Fræðsluskilti við fjallvegi virðast hafa borið árangur því dregið hefur úr umferð smábíla á hálendinu og tilvikum utanvegaaksturs hjá útlendingum hefur fækkað,“ segir í frétt umhverfisráðuneytisins.

Þá hefur starfshópur á vegum ráðuneytisins unnið að því að flokka vegi í samvinnu við sveitarfélög og er vonast til að sú vinna muni skila sér í tillögum í haust um það hvaða vegir eigi að vera opnir og hverjir lokaðir. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×