Innlent

Ákærðir fyrir milljónaþjófnaði

Hallormsstaður Mestum verðmætum náðu þjófarnir hjá Skógrækt ríkisins í Hallormsstað.
Hallormsstaður Mestum verðmætum náðu þjófarnir hjá Skógrækt ríkisins í Hallormsstað.
Lögreglustjórinn á Eskifirði hefur ákært tvo menn um tvítugt fyrir að brjótast ítrekað inn og stela munum að verðmæti á þriðju milljón króna. Mennirnir eru einnig ákærðir fyrir fjársvik.

Þeir brutust inn í verkstæði Skógræktar ríkisins í Hallormsstað á síðasta ári. Þar stálu þeir fimm keðjusögum, að áætluðu verðmæti ríflega 1,2 milljónir króna, svo og þremur bensínbrúsum, að því er segir í ákæru.

Næst lá leiðin í sumarbústað á Fljótsdalshéraði. Þar létu mennirnir greipar sópa og stálu rafmagnstækjum og borðbúnaði. Þeir reyndu að brjótast inn í annan sumarbústað en urðu frá að hverfa eftir að hafa unnið skemmdir á honum.

Skömmu síðar brutust þeir inn í læstan geymslugám á Egilsstöðum og stálu þar nokkru magni af hreinlætisvörum. Næst brutust þeir inn í hafnsögubátinn Vött og stálu sjónauka, talstöð, lyfjum og fleiru. Þeir komust einnig inn á Hótel Capitano á Neskaupstað, eftir að hafa fengið lykil hjá manni og konu, sem ákærð eru í málinu fyrir þátttöku. Þar stálu þeir matvöru og áfengi fyrir nær 200 þúsund krónur. Loks sviku þeir á þriðja tug þúsunda út með greiðslukorti sem þeir höfðu stolið.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×