Innlent

Hitastig sjávar sem um hávetur

Börkur Nk Eitt skipanna sem nú leita síldar fyrir norðaustan land.
Börkur Nk Eitt skipanna sem nú leita síldar fyrir norðaustan land.
Fimm íslensk skip leituðu að norsk-íslenskri síld í veiðanlegu magni norðaustur af landinu nú í byrjun vikunnar. Til þessa hefur leitin lítinn árangur borið, segir í frétt á heimasíðu HB Granda.

Lundey NS hélt frá Vopnafirði á mánudagskvöld og að sögn Stefáns Geirs Jónssonar skipstjóra er sannkallað vetrarástand í hafinu og lítið virðist gengið af síld á hafsvæðið sem íslensku skipin hafa sótt á til síldveiða á þessum árstíma. Lundey var við leit ásamt Jónu Eðvalds SF, Berki NK, Beiti NK og Ásgrími Halldórssyni SF. Kannað var svæðið austur af Vopnafirði og norðaustur í síldarsmuguna svokölluðu. Þar var hitastig sjávar alla leiðina út undir 200 mílna línuna frá 3,0 og upp í 3,5 gráður. „Það þýðir að það er bara vetur hér enn sem komið er," er haft eftir Stefáni Geir.

Stefán Geir segir ekkert nýtt að hafa þurfi fyrir því að leita að síldinni. Veiði hafi verið frekar treg eftir sjómannadag í fyrra og fram yfir 20. júní. Ekki varð vart við makríl í íslensku lögsögunni en nokkur færeysk skip voru á makrílveiðum norðan við Færeyjar.- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×