Innlent

Grunaður um rúm 40 auðgunarbrot

Nefnd fjármálaráðuneytis um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins kemst að þeirri niðurstöðu að rétt hafi verið af innanríkisráðherra að veita fyrrverandi fangelsisstjóra tímabundið lausn frá störfum.
Nefnd fjármálaráðuneytis um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins kemst að þeirri niðurstöðu að rétt hafi verið af innanríkisráðherra að veita fyrrverandi fangelsisstjóra tímabundið lausn frá störfum. Mynd/Þráinn Farestveit
Sú ákvörðun innanríkisráðherra að veita Geirmundi Vilhjálmssyni lausn frá starfi fangelsisstjóra á Kvíabryggju um stundarsakir, var rétt samkvæmt niðurstöðu nefndar fjármálaráðuneytis um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Geirmundur, sem taldi ákvörðunina óréttmæta og síðar óupplýsta, sætir rannsókn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna meintra auðgunarbrota hans á kostnað fangelsisins.

Rannsóknin er á lokastigi, að sögn lögreglu.

Að því er fram kemur í gögnum sem nefndin hefur aflað hefur lögreglan að undanförnu rannsakað rúmlega fjörutíu tilvik, þar sem grunur leikur á að fangelsisstjórinn fyrrverandi hafi dregið sér fjármuni eða verðmæti í eigu fangelsisins. Við rannsókn málsins gerði lögregla húsleitir á heimili Geirmundar og í sumarhúsi í eigu föður hans.

Við leitina lagði lögregla hald á ýmsa muni sem taldir eru í eigu fangelsisins, þar á meðal ýmis verkfæri, varahluti í bifreiðar og hjólbarða.

Þá kemur enn fremur fram, að Fangelsismálastofnun hafði áður en til rannsóknarinnar kom gert skriflega athugasemd við Geirmund vegna mikilla innkaupa fangelsisins frá fyrirtækinu N1. Samkvæmt söluyfirliti frá N1 höfðu seldar vörur frá fyrirtækinu farið úr ríflega 1,4 milljónum vegna ársins 2009 í rúmlega 3,5 milljónir fyrstu tíu mánuði árs 2010. Ríkisendurskoðun gerði athugasemdir við innkaup til fangelsisins að upphæð 1,7 milljónir króna á tíu mánaða tímabili 2010, þar sem hið keypta fannst ekki í fangelsinu, tengdist ekki starfsemi þess eða bókhaldsgögn fundust ekki fyrir.

Gögn sem lögð hafa verið fram við rannsókn málsins sýna tíð innkaup fyrir fangelsið úr matvöruversluninni Samkaupum í Grundarfirði eða um 50 til 60 smáinnkaup í hverjum mánuði, þrátt fyrir fyrirmæli um hagkvæm innkaup frá birgjum eða lágvöruverslunum, að því er fram kemur í niðurstöðum nefndarinnar. Stór hluti innkaupanna reyndist munaðarvara, sem ekki væri á boðstólum í fangelsum ríkisins, svo sem kjúklingalundir, regnbogasilungur, sælgæti, gosdrykkir og fleira.

Geirmundur og eiginkona hans hefðu að mestu stundað innkaupin. Í sumum tilvikum hefðu fangar kvittað fyrir móttöku á vörum, en fangelsisstjórinn í öllum tilvikum samþykkt reikningana.

jss@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×