Innlent

Vélhjólamenn með haglabyssur

Byssur Byssurnar sem teknar voru. Lögreglan rannsakar nú uppruna þeirra.
Byssur Byssurnar sem teknar voru. Lögreglan rannsakar nú uppruna þeirra.
Tveir karlmenn á þrítugsaldri, sem lögreglan telur að séu meðlimir Íslandsdeildar Hells Angels, voru handteknir fyrr í vikunni við iðnaðarhúsnæði í austurborginni.

Við húsleit þar fundust rúmlega 120 kannabisplöntur á nokkrum ræktunarstigum. Það er mat lögreglu að ræktunin, sem var á tveimur hæðum í húsinu, hafi verið þar í nokkurn tíma.

Við húsleitina fundust einnig tvær haglabyssur, tvíhleypa og hálfsjálfvirk. Búið var að sverfa verksmiðjunúmerið af báðum byssunum. Áhugi meðlima Hells Angels á að safna vopnum er þó þekktur víða um heim, að sögn lögreglunnar. Haglabyssurnar eru nú í skoðun.

Ýmis gögn er tengjast Hells Angels fundust á staðnum, en tveir aðrir karlmenn á þrítugsaldri sem hafa tengingu við klúbbinn voru einnig yfirheyrðir vegna málsins.

Rannsóknin er liður í samvinnu lögreglustjóranna á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum sem beinist gegn skipulagðri brotastarfsemi, meðal annars þeirri sem tengist alþjóðlegum vélhjólahópum.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×