Innlent

Landsdómur hafnar kröfu Geirs

Geir H. Haarde Landsdómur hafnar málatilbúnaði hans.
Geir H. Haarde Landsdómur hafnar málatilbúnaði hans.
Landsdómur hafnaði fyrir síðustu helgi kröfu Geirs H. Haarde þess efnis að átta þingkjörnir fulltrúar í dómnum vikju sæti við meðferð máls Alþingis á hendur honum.

Geir krafðist þess að þeir vikju, enda mætti draga hæfi þeirra í efa þar sem Alþingi hefði ákveðið að framlengja skipunartíma þeirra eftir að málareksturinn hefði verið farinn af stað.

Dómurinn fellst ekki á þennan málatilbúnað. Dómararnir átta hefðu verið kjörnir í dóminn mörgum árum áður en ákveðið var að sækja Geir til saka og ekki þyrfti að efast um hæfi þeirra þótt tíminn hefði verið framlengdur.

Ekki verður frekari málarekstur fyrir landsdómi fyrr en í haust, þegar tekist verður á um frávísunarkröfu Geirs. Hann skilar greinargerð sinni í ágúst og í kjölfarið vinnur saksóknarinn greinargerð um kröfuna. Málflutningur um hana er áætlaður 5. september.

Búast má við að dómurinn taki sér nokkrar vikur í að úrskurða um frávísunarkröfuna. Verði henni hafnað fær Geir nokkrar vikur til að skila greinargerð um efnisatriði málsins, og verjandinn í kjölfarið tíma til að skila sinni greinargerð.

Ekki má því búast við að málflutningur í málinu sjálfu hefjist fyrr en á nýju ári, fari það á annað borð alla leið. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×