Innlent

Sigmar plankar í flugvél til Spánar

Sigmar tekur plankann í myndveri Kastljóssins, en myndin hefur farið eins og eldur í sinu um plankasamfélagið. Ritstjóri Kastljóssins hefur plankað tvisvar í sumarfríinu á Spáni; í flugvélinni og á flugstöð.
Sigmar tekur plankann í myndveri Kastljóssins, en myndin hefur farið eins og eldur í sinu um plankasamfélagið. Ritstjóri Kastljóssins hefur plankað tvisvar í sumarfríinu á Spáni; í flugvélinni og á flugstöð.
„Ástæðan fyrir því að ég er að þessu er sú að þetta er ákaflega heimskulegt og algjörlega tilgangslaust. Og það er stundum fyndið að taka þátt í slíku þótt sumum finnist það ekki," segir Sigmar Guðmundsson, ritstjóri Kastljóssins og nýjasta planka-stjarnan á Íslandi.

Myndin af Sigmari þar sem hann leggur stund á þetta sérkennilega sport í myndveri Kastljóssins á RÚV hefur vakið mikla athygli. Sigmar var ekki af baki dottinn þótt hann hefði öðlast skyndilega frægð í plankasamfélaginu fyrir myndina því hann plankaði bæði ofan á þvottasnúrum samstarfskonu sinnar, Brynju Þorgeirsdóttur, og ofan á píanóinu heima hjá henni.

Sigmar var staddur í sumarfríi á Spáni með börnunum sínum þegar Fréttablaðið náði tali af honum og hann hafði þegar tekið tvo planka í fríinu; annan í nokkur þúsund feta hæð í flugvélinni á leiðinni til Spánar en hinn inni í flugstöðinni. Börnin eru hrifin af þessu uppátæki pabbans. „Við tökum kannski einn til tvo planka á dag, þetta er fjölskyldusportið í dag," segir Sigmar og skellir upp úr, hann hefur engar eðlilegar skýringar á þessu plankaæði sem riðið hefur yfir netheima. „Þetta er sennilega eitt ómerkilegasta og vitlausasta æði sem gengið hefur yfir heiminn. En það er um leið bæði græskulaust og hættulaust." - fgg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×