Innlent

Frysting beinist helst að Skúla

Skúli Þorvaldsson
Skúli Þorvaldsson
Sérstakur saksóknari hefur fengið eignir Skúla Þorvaldssonar, Hreiðars Más Sigurðssonar og Magnúsar Guðmundssonar í Lúxemborg kyrrsettar. Viðskiptablaðið greindi frá þessu í gær, en áður hafði verið fjallað um kyrrsetningarnar í Morgunblaðinu.

Í Viðskiptablaðinu segir að eignir fleiri Íslendinga hafi verið kyrrsettar en ekki hafi fengist staðfest um hverja sé að ræða. Kyrrsetningin hafi farið fram á grundvelli réttarbeiðni sem beindist einkum að Skúla Þorvaldssyni og félögum í hans eigu. Skúli var helsti lánþegi Kaupþings í Lúxemborg. Magnús var þar bankastjóri og Hreiðar Már forstjóri Kaupþingssamstæðunnar.

Kaupþing lánaði félagi Skúla, Lindsor Holding Corporation, 28 milljarða króna 6. október 2008, sama dag og bankinn fékk gríðarstórt neyðarlán frá Seðlabankanum. Féð notaði Lindsor Holding síðan til að kaupa skuldabréf af Kaupþingi í Lúxemborg, öðru félagi Skúla og starfsmönnum Kaupþings, og flytja þannig áhættu af þeim. Margt bendir til að þetta hafi verið gert á miklu yfirverði þannig að hagnaður hafi myndast. Viðskiptablaðið segir að það sé þessi hagnaður sem sérstakur saksóknari sé að reyna að koma höndum yfir. - sh

Magnús Guðmundsson
Hreiðar Már Sigurðsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×