Innlent

Forsendubrestur gæti stytt kjarasamninga

Krefjast efnda 
Aðilar vinnumarkaðarins eru ósáttir við efndir stjórnvalda á aðgerðum vegna kjarasamninga. Í næstu viku mun ráðast hvort samningum verður sagt upp og ný samningalota muni hefjast í upphafi næsta árs.
Krefjast efnda Aðilar vinnumarkaðarins eru ósáttir við efndir stjórnvalda á aðgerðum vegna kjarasamninga. Í næstu viku mun ráðast hvort samningum verður sagt upp og ný samningalota muni hefjast í upphafi næsta árs. Fréttablaðið/Valli
Aðilar vinnumarkaðarins telja skorta á efndir stjórnvalda í mörgum af þeim lykilatriðum sem þau tiltóku í aðgerðaáætlun sinni vegna nýrra kjarasamninga. Því gætu forsendur samninganna verið brostnar.

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) og Samtök atvinnulífsins (SA) munu funda með fulltrúum stjórnvalda á mánudag, en eftir hann gætu ASÍ og SA ákveðið að ógilda þriggja ára samninginn. Komi til þess munu umsamdar hækkanir þessa árs gilda fram til loka janúar á næsta ári en eftir það hæfist samningarimma á ný.

Meðal annars er deilt á að útlit sé fyrir að hagvöxtur verði minni en ráðgert hafi verið, gengi krónunnar verði haldið niðri næstu misseri og ekki örli enn á þeim umfangsmiklu opinberu framkvæmdum sem hafi verið boðaðar.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir í samtali við Fréttablaðið að yfirlýsingar stjórnvalda um að gengi krónu verði haldið veiku á næstunni séu alls ekki í samræmi við forsendur samninganna.

„Það er erfitt fyrir okkur að taka ákvörðun um að láta kjarasamning gilda í þrjú ár án þess að vita nákvæmlega hvaða stefnu stjórnvöld hafa í efnahagsmálum, meðal annars hvað varðar krónuna. Það er forsenda í okkar kjarasamningi að krónan styrkist markvert á þessu ári og verulega á næsta ári, en ef ríkisstjórnin er ekki með slíkt á sinni stefnuskrá skil ég vel að menn staldri við.“

Innan SA er ekki minni óvissa um framhaldið að sögn Helga Magnússonar, formanns Samtaka iðnaðarins og stjórnarmanns í framkvæmdastjórn SA.

„Við gengum býsna langt varðandi hækkanir og aukin útgjöld atvinnulífsins í trausti þess að hagvöxtur á samningstímanum yrði ekki á bilinu 0 til 2 prósent eins og nú stefnir í heldur 4 til 5 prósent, sem er forsenda þess að atvinnulífið geti ráðið við hækkun launa án þess að það leiði til verðhækkana og verðbólgu.“

Helgi segir atvinnulífið hafa tekið áhættu og gengið eins langt og hægt hafi verið, í trausti þess að „allir legðust á eitt til að koma hagvexti á skrið“, ekki síst með auknum stórframkvæmdum og því að eyða óvissu í sjávarútvegi.

„Ekkert af þessu er að ganga eftir. Ófriður ríkir enn um sjávarútveginn og ekkert er að fara í gang á sviði stórframkvæmda.“

Hann bendir einnig á að verðbólga sé tekin að aukast og Seðlabankinn hafi boðað vaxtahækkanir, en við slíkar aðstæður sé ekki innstæða fyrir launahækkunum og kjarabætur verði engar í verðbólgu.

thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×