Erlent

80 prósent flóttamanna í þróunarríkjum

flóttamenn frá líbíu Mikill fjöldi hefur þurft að flýja frá Líbíu á þessu ári. nordicphotos/afp
flóttamenn frá líbíu Mikill fjöldi hefur þurft að flýja frá Líbíu á þessu ári. nordicphotos/afp
Áttatíu prósent allra flóttamanna í heiminum eru í þróunarríkjum. Þetta kemur fram í skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, sem gefin var út í gær á alþjóðadegi flóttamanna. Gríðarlegur fjöldi flóttamanna er í mörgum fátækustu ríkjum heims. 1,9 milljónir eru í Pakistan, 1,1 milljón í Íran og ein milljón í Sýrlandi. Tölurnar eru fyrir árið 2010 og ná því ekki til flóttamanna frá Sýrlandi og öðrum löndum þar sem mótmæli hafa verið barin niður á þessu ári.

Í Pakistan eru einnig flestir flóttamenn miðað við stærð hagkerfisins, eða 710 á hvern Bandaríkjadal af landsframleiðslu á mann. Til samanburðar eru 17 flóttamenn á hvern dal landsframleiðslu á mann í Þýskalandi, sem er það iðnríkjanna sem hýsir flesta flóttamenn. Þar eru tæplega 600 þúsund flóttamenn.

Flóttamannastofnunin segir að 43,7 milljónir manna séu á vergangi. Þar af eru 15,4 milljónir flóttamanna og 27,5 milljónir fólks sem er flóttamenn innan heimalandsins. Þá eru hælisleitendur tæplega 850 þúsund talsins. Stofnunin segir sérstakt áhyggjuefni að 15.500 hælisleitendanna séu börn sem hafi orðið viðskila við foreldra sína.

António Guterres, yfirmaður stofnunarinnar, sagði í gær að ótti fólks í iðnríkjum við flóðbylgju flóttamanna væri byggður á misskilningi eða stórlega ýktur. Þvert á móti væru það fátækari ríkin sem bæru byrðarnar. Hann sagði heiminn vera að bregðast flóttafólki og að iðnríkin yrðu að taka á þessu ójafnvægi. Þau yrðu að taka á móti fleira flóttafólki og leggja meira af mörkum til friðarviðræðna. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×