Innlent

Þarf nýtt umboð fyrir aðlögun

Jón telur samninganefnd við EDB þurfa nýtt umboð frá Alþingi verði tollavernd gefin eftir. Mynd/GVA
Jón telur samninganefnd við EDB þurfa nýtt umboð frá Alþingi verði tollavernd gefin eftir. Mynd/GVA
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, telur að samninganefnd Íslands við Evrópusambandið þurfi að leita nýs umboðs frá Alþingi, komi sú staða upp að gefa þurfi eftir tollavernd eða aðra lykilþætti í stuðningi við landbúnaðinn. Þetta kemur fram í frétt á vef Bændablaðsins.

Afstaða ráðherra kemur fram í svari, dagsettu 22. júní, við fyrirspurn Bændasamtaka Íslands. Fyrirspurnin er til komin vegna draga að rýniskýrslu ESB um landbúnað, en samtökin telja að þar komi fram að fulltrúar Íslands í samningahópnum hafi viðurkennt réttarreglur ESB í landbúnaðarmálum sem grundvöll viðræðnanna.

Í svari ráðherra segir: „Ef ESB býður Íslandi að samningaborði án skilyrða um aðlögun þá hlýtur samninganefndin að leggja fram sína samningsafstöðu og þegar hún er sett fram reynir fyrst á varnarlínur Bændasamtakanna. Telji samninganefnd Íslands við ESB aftur á móti að gefa þurfi eftir tollvernd eða aðra lykilþætti í stuðningi við landbúnaðinn, að kröfum ESB, er henni væntanlega skylt að leita eftir umboði til þeirrar málafylgju hjá Alþingi.“- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×