Innlent

Aldrei fleiri hross á landsmóti en í sumar

Landsmótsgestir hafa fylgst vel með því sem fram fer á keppnisvellinum og fagnað ákaft þegar vel tekst til. Frettabladid/Hilda Karen
Landsmótsgestir hafa fylgst vel með því sem fram fer á keppnisvellinum og fagnað ákaft þegar vel tekst til. Frettabladid/Hilda Karen
„Það hafa aldrei verið fleiri hross á landsmóti," segir Haraldur Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Landsmóts 2011, sem nú stendur yfir á Vindheimamelum í Skagafirði.

Um þúsund hross eru skráð til leiks á mótinu og segir Haraldur að þessi fjöldi stafi af meiri þátttöku og færri afskráningum heldur en oft áður. „Við getum því ekki annað sagt en að við höfum greint þörfina fyrir landsmót rétt, að hún sé mikil."

Haraldur segir blómstrandi mannlíf vera á mótssvæðinu. Að vísu hafi svolítil gjóla verið undanfarna daga, en veðurspáin fyrir helgina sé ljómandi góð.

„Það á að ganga í austanátt sem boðar blíðu í Skagafirðinum."

Um fimm þúsund miðar höfðu verið seldir á mótið um miðjan dag í gær. Haraldur segir það fara fram úr björtustu vonum, því straumurinn liggi yfirleitt á landsmótsstað á fimmtudag og föstudag.

„Aðstaðan hér er frábær", segir Haraldur spurður út í aðstæður til landsmótshalds á Vindheimamelum. „Skagfirðingar eru búnir að koma hér upp prýðisaðstöðu að öllu leyti enda kunna þeir það. Hér er fjöldi landsmótsgesta í tjöldum, tjaldvögnum og hjólhýsum. Ég hugsa að notkun á slíkri gistiaðstöðu hafi aukist ef eitthvað er. Auðvitað eru svo öll gistirými í nágrenninu full en við virðumst vera með töluvert meiri fjölda hér í byrjun móts heldur en var 2006."

Haraldur Þórarinsson egir alla boðna og búna að hjálpa til þar sem þarf að leggja hönd á plóg.
Haraldur Þórarinsson, formaður Landssambands hestamannafélaga, segir mótshaldið hafa gengið afskaplega vel. „Andrúmsloftið í Skagafirði og svæðið hafa boðið menn velkomna og hér er allt eins og best verður á kosið. Hestakosturinn er alveg frábær, algjör veisla. Sérstaka eftirtekt mína hefur vakið hve börn, unglingar og ungmenni eru feikilega vel ríðandi og flinkir knapar. Það er gaman að sjá það."

jss@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×