Innlent

Ávinningurinn tíu milljarðar

Tíu milljarða ávinningur var af mennta- og vísindasamstarfi Íslands við Evrópusambandið síðustu fimmtán ár. Þetta kemur fram í grein Ágústs Hjartar Ingþórssonar, forstöðumanns Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands, í Fréttablaðinu í dag.

Styrkir til íslenskra aðila námu 150 milljónum evra á árunum 1995 til 2010. Það jafngildir 25 milljörðum á núverandi gengi. Öll umrædd ár hefur Ísland greitt minna í þátttökugjald en sem nemur styrkveitingum. Munurinn er 60 milljónir evra, eða tíu milljarðar króna.

Ágúst segir styrkina þó ekki vera eina ávinninginn. Aðgangur að þekkingu og samstarfi í Evrópu efli rannsókna- og þróunarstarf í landinu og geti verið enn verðmætari.

Stærsti einstaki styrkþeginn á síðustu árum er Íslensk erfðagreining, en næst á eftir kemur Háskóli Íslands. Háskólinn hefur fengið rúman milljarð í rannsóknarfé frá ESB síðustu ár.

- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×