Innlent

ESA áminnir Ísland vegna umferðarmála

Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur sent íslenskum og norskum stjórnvöldum rökstutt álit en löndin hafa ekki innleitt evrópska umferðaröryggisstaðla. Stjórnvöldum er gefinn tveggja mánaða frestur til úrbóta.

Ólafur Kr. Guðmundsson, varaformaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, segir alvarlegt að fara ekki eftir þeim stöðlum sem Ísland þó hefur skuldbundið sig til að fylgja. Til að mynda eigi eftir að staðfesta Vínarsáttmálann um umferðaröryggi, en hann var samþykktur árið 1968.

Ólafur er einnig tæknistjóri EuroRap, en það er fjölþjóðlegt verkefni í umferðaröryggi. Hann segir að stjórnvöld hafi verið gagnrýnd síðustu sex árin fyrir skort á umferðaröryggi.

Meðal þess sem ekki stenst staðlana eru vegaxlir, handrið og ljósastaurar, til að mynda á Reykjanesbrautinni nýju. Ólafur segir að geilin á milli veghlutanna þar sé ekki heldur í samræmi við staðla, réttara væri að nota vegrið. Nýir ljósastaurar sem reistir eru fylgja þó stöðlunum og eru árekstrarprófaðir.

„Það er hættulegt að fara ekki eftir þessum stöðlum. Þetta er háalvarlegt mál sem snýst um umferðaröryggi," segir Ólafur.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir að Vegagerðin hafi, við hönnun og endurbætur vega, unnið eftir rýnikerfi sem uppfylli þessa staðla. Það sem upp á vanti sé að færa slíkt í reglugerðir og lög. Verið sé að vinna að slíkri reglugerð í ráðuneytinu.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×