Innlent

Auka þarf fræðslu um hættu

Miklabraut Slysum fjölgaði eftir að sérakreinum var komið upp fyrir hópferðabíla.
Miklabraut Slysum fjölgaði eftir að sérakreinum var komið upp fyrir hópferðabíla.
Sérakreinar fyrir hópferðabíla á Miklubraut koma ekki vel út þegar slysatíðni er skoðuð. Slysum hefur fjölgað eftir að þessar akreinar voru teknar í notkun en þó hafa hópferðabílar ekki verið orsakavaldar. Þetta kemur fram í skýrslu sem verkfræðistofan Mannvit vann fyrir Vegagerðina.

Sérakrein var opnuð til vesturs á Miklubraut milli Kringlu og Lönguhlíðar árið 2005 og hún var lengd til austurs að Skeiðarvogi þremur árum síðar. Árið 2009 var svo opnuð sérakrein í austurátt frá strætóskýli við Stakkahlíð og að Kringlumýrarbraut.

Slysatíðnin var áberandi hærri fyrir umferð í vesturátt en austurátt. Mestur var munurinn árið 2005 en þá urðu 0,31 sinnum fleiri slys á hverja milljón ökutækja til vesturs en austurs. Hlutfallsmunurinn var mestur 2009, þegar slysatíðni í vestur var 135 prósentum hærri en fyrir umferð í austur. Þá er slysatíðnin mun hærri á aðreinum en fráreinum.

Lagðar eru til nokkrar einfaldar tillögur að úrbótum í skýrslunni. Úrbæturnar snúa aðallega að aðreinum vegna fjölda slysa. Meðal mögulegra úrbóta er að sérakreinar verði skipulega kynntar almenningi, að notendur sérakreina fái fræðslu um hætturnar, að biðskyldumerkingar séu bættar og að sérstök hægri beygjuljós séu sett upp. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×