Erlent

Sinnuleysi vegna neyðar í Sómalíu, Keníu og Eþíópíu

Konur frá Sómalíu með ungbörn bíða aðstoðar í flóttamannabúðum í Mógadisjú í Sómalíu.
Konur frá Sómalíu með ungbörn bíða aðstoðar í flóttamannabúðum í Mógadisjú í Sómalíu. Mynd/AP
„Söfnunin hefur gengið mjög hægt, enda hefur hún ekki fengið mikla kynningu í fjölmiðlum," segir Petrína Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri samtakanna Barnaheill, sem nú reynir að útvega fé til aðstoðar fólki í Sómalíu, Kenía og Eþíópíu.

Talið er að hungursneyð vofi nú yfir níu milljónum manna í þessum þremur löndum. Allt að helmingur þeirra er börn og mörg þessara barna eru nú þegar vannærð. Í Sómalíu er ástandið verst, en þar er nú talið að þriðji hver íbúi sé við þröskuld hungursneyðar.

„Í samfélagi eins og Sómalíu, þar sem innviðir eru engir vegna áratuga átaka, reynir fólk bara að þrauka og má ekki við neinum áföllum. Þetta hefur verið erfitt þarna í áratugi. Fólk treystir á rigningarnar og að búfénaðurinn fái að éta, en þegar þurrkar verða þá fellur búfénaðurinn fyrst og síðan fólkið. Ef engin aðstoð berst þá blasir ekkert annað en dauðinn við fólki."

Hér á landi eru þrenn hjálparsamtök að safna fé til aðstoðar fólki á þurrkasvæðunum í Afríku. Auk Barnaheilla eru það UNICEF á Íslandi og Rauði krossinn.

Petrína segir erfitt að vekja athygli almennings á neyðinni, mun erfiðara en til dæmis þegar náttúruhamfarir urðu í Japan og Haítí nýverið, eða þegar flóðbylgjan mikla reið yfir í Suðaustur-Asíu fyrir nokkrum árum.

„Harmleikurinn er samt ekkert minni. Þarna eru níu milljón manns sem eiga yfir höfði sér að deyja úr hungri ef ekki verður brugðist við. Þetta er eitt versta neyðarástand sem fólk á þessu svæði hefur séð."

Hún segir starfsfólk hjálparstofnana lengi hafa velt fyrir sér hvað ráði bæði fréttamati fjölmiðla og viðbrögðum almennings.

Hún segir að skyndilegar hamfarir virðist vekja meiri athygli en neyð sem kemur hægt og rólega, eins og þurrkar og hungursneyð. „Reynslan sýnir að þar sem náttúruhamfarir valda skyndilegri neyð er miklu auðveldara að fá almenning í lið með sér. Kannski hefur þetta líka eitthvað með það að gera að bæði Japan og Haítí standi okkur nær en löndin í Afríku," segir Petrína og minnir líka á íslensku rústabjörgunarsveitina sem var send til Haítí, „sem var náttúrulega ánægjulegt og fékk mikla umfjöllun í fjölmiðlum hér á landi".

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×