
Krafan um endurupptöku í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu hefur orðið æ háværari í kjölfar andláts Sævars Ciesielski, en hann var einn sakborninganna í málinu. Margir hafa beint máli sínu til Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra og hvatt hann til að beita sér fyrir endurupptöku. Undirskriftasöfnun er hafin á netinu þar um. Hæstiréttur hefur í tvígang hafnað endurupptöku málsins.
Sigurður Líndal prófessor segir að það væri andstætt þrískiptingu valdsins ef pólitískur ráðherra hefði heimild til að skipa fyrir um endurupptöku mála. Hana hafi Hæstiréttur einn.
Ráðherra geti þó sent réttinum beiðni um endurupptöku, líkt og aðrir. Fjölmörg skilyrði séu tilgreind fyrir endurupptöku. „Ég sé ekki að ráðherrann geti gert annað en að beina því til Hæstaréttar að hann taki málið upp."
Sú hugmynd hefur einnig skotið upp kollinum að skipuð yrði rannsóknarnefnd sem færi yfir málið. Sigurður segir slíka nefnd ekki myndu hafa lagalegt gildi, en hún gæti haft pólitískt vægi.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra vildi ekkert tjá sig um málið þegar Fréttablaðið leitaði eftir því.- kóp