Innlent

Tún og akra þarf að vökva

Jónatan Magnússon
Jónatan Magnússon
Nú er svo komið að bændur eru farnir að huga að búnaði til að vökva akra og tún, segir Ægir Jóhannesson, bóndi að Jörfa í Víðidal.

Víða um land er spretta með minnsta móti og að sögn Ægis gæti svo farið að það yrði enginn seinni sláttur vegna þurrka. „Kannski verður ekki nema einn sláttur hjá mörgum sauðfjárbændum í ár,“ segir hann.

„Þeir slá kannski seinnipartinn í þessum mánuði og nota það sem eftir kemur sem beit á túnin í haust. Menn þurfa að sjá til og vera svolítið útsjónarsamir í þessu ástandi.“

Ægir er kúabóndi en er einnig með 30 hektara kornakur sem finnur ekki síður fyrir þurrkum. „Þetta ætti að vera farið að skríða en það bólar ekkert á því enn þá,“ segir hann. Hann segir einnig marga bændur vera farna að ræða þennan möguleika.

Hann útilokar ekki að vera kominn með búnað og tæki til að vökva næsta sumar. „Ætli þetta sé ekki þriðja sumarið sem er svona verulega þurrt og maður verður bara að bregðast við þessu með einhverjum hætti. Ég hef verið að kynna mér þennan búnað og ætla að taka mér haustið til þess að gera það upp við mig.“

Á Vestfjörðum voru bændur einnig víða í vanda vegna þurrka. Þó var Jónatan Magnússon, bóndi á Hóli í Önundarfirði, ánægður með fyrri sláttinn. „Við fengum náttúrulega svo mikinn raka seinnipartinn í maí þegar það snjóaði, en síðan þá höfum við varla fengið dropa úr lofti og nú er farið að brenna á túnum þannig að ef það fer ekki að rigna þá er útlitið ekki gott fyrir seinni slátt,“ segir hann.

En kýrnar á Hóli þekkja einnig annars konar skort en á rigningu. Jónatan er vanur að gefa þeim kalkþörung frá Kalkþörungaverksmiðjunni á Bíldudal. „Það kláraðist há mér um daginn og þá leið heil vika sem þær fengu ekkert og þá byrjuðu þær strax að fá doða og urðu bara veikar og slappar,“ segir hann.

jse@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×