Innlent

Jafnvel skipin lyfta sér á kreik við þjóðhátíðarlög

Tímamót urðu í Eyjum í gær þegar heimamenn gátu litið skipsbotn á þurru landi í fyrsta sinn frá því Gandí endastakkst í skipalyftunni árið 2006.
Tímamót urðu í Eyjum í gær þegar heimamenn gátu litið skipsbotn á þurru landi í fyrsta sinn frá því Gandí endastakkst í skipalyftunni árið 2006. mynd/óskar friðriksson
Skipalyftan í Vestmannaeyjum var tekin í notkun á nýjan leik í gær, eftir fimm ára hlé, þegar Kap II var hífður upp.

Árið 2006 slitnuðu vírar þegar verið var að hífa Gandí VE svo skipið endastakkst ofan í skipalyftuna sem bar ekki barr sitt eftir það fyrr en í gær.

Það er Vestmannaeyjahöfn sem rekur lyftuna en einungis eitt tilboð barst í rekstur hennar og var því hafnað.

Elliði Vignisson bæjarstjóri var að vonum ánægður með þennan áfanga og sagði það ótækt að stærsta verstöð landsins þyrfti að senda skip sín annað til botnhreinsunar, öxuldráttar og annars viðhalds. „Þessi ár meðan lyftan lá niðri er eina tímabilið í sögu bæjarins þar sem ekki var slippur hér í Eyjum,“ segir hann.

Kap II þurfti reyndar ekki á neinu viðhaldi að halda í gær. „Nei, alls ekki. Hér er bara svo mikið stuð, allir að hlusta á þjóðhátíðarlögin svo jafnvel skipin lyfta sér á kreik,“ sagði bæjarstjórinn en vart heyrðist í honum fyrir þjóðhátíðarsöngli þegar Fréttablaðið náði í hann.

Hann þarf þó ekki að kvíða verkefnaskorti hjá mönnum við skipalyftingar því nú þegar bíða ellefu skip eftir að botn þeirra verði tekinn í gegn.

- jse




Fleiri fréttir

Sjá meira


×