Innlent

Koma á varanlegum leigumarkaði

Komið verður á fót varanlegum leigumarkaði í Reykjavík og samræma leigubætur, ef tillögur starfshóps um húsnæðisstefnu verða að veruleika.fréttablaðið/vilhelm
Komið verður á fót varanlegum leigumarkaði í Reykjavík og samræma leigubætur, ef tillögur starfshóps um húsnæðisstefnu verða að veruleika.fréttablaðið/vilhelm
Við skipulag íbúðarhverfa skal tryggt að fimmtungur íbúða að minnsta kosti miðist við þarfir tekjuminni íbúa. Þetta er á meðal þeirra tillagna sem finna má í drögum að nýrri húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar sem lögð voru fyrir borgarráð í gær. Nú er hlutfall slíkra íbúa langt undir 20 prósentum.

Borgarráð skipaði starfshóp í lok síðasta árs og hefur hann nú skilað tillögum sínum. Hópurinn leggur til að leigumarkaður verði stækkaður og það verði skoðað hvort styrkja megi húsnæðissamvinnufélög og félagasamtök með því að úthluta lóðum til þeirra. Þannig verði hægt að bjóða ungu fólki upp á leigu- og búseturéttaríbúðir á viðráðanlegum kjörum. Þá verði skoðaðir kostir þess að borgin verði kjölfesta í langtíma leigufélögum. Þannig megi byggja upp varanlegan og öruggan leigumarkað.

Starfshópurinn leggur einnig til að komið verði á fót sérstökum persónubundnum stuðningi vegna húsnæðis. Stuðningur verði óháður því hver reki húsnæðið og miðist við aðstæður og greiðslubyrði sérhvers leigjanda. Félagsbústaðir eiga að gegna sínu hlutverki áfram en gerð verði úttekt á rekstarfyrirkomulaginu og kannað hvort Félagsbústaðir geti sinnt félagslegu húsnæði á öllu höfuðborgarsvæðinu.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×