Innlent

Ekki bara fyrir Þjóðhátíð

Eflaust munu einhverjir fá sviðsskrekk er þeir stíga á svið á Þjóðhátíðinni í ár. mynd/óskar friðriksson
Eflaust munu einhverjir fá sviðsskrekk er þeir stíga á svið á Þjóðhátíðinni í ár. mynd/óskar friðriksson
Tryggvi Már Sæmundsson
„Við viljum meina að þetta sé fyrsta varanlega útisviðið á Íslandi,“ segir Tryggvi Már Sæmundsson framkvæmdastjóri ÍBV, en verið er að klára annan áfanga af þremur við mikið svið í Herjólfsdal. Það verður tekið í notkun nú á komandi Þjóðhátíð.

Sviðið sjálft er í þriggja metra hæð en þak þess er í tíu og hálfs metra hæð. Undir sviðinu er síðan salernisaðstaða, sjoppa og aðstaða fyrir starfsfólk.

Tryggvi Már segir menn síður en svo fyllast sviðsskrekk við þessi býsn heldur séu menn stórhuga og hyggist reyna að fá erlenda tónlistarmenn til að koma fram þarna í framtíðinni og að meiningin sé að nota sviðið ekki einungis á Þjóðhátíð.

Sviðið kostar 90 milljónir og verður gert í þremur áföngum en þeim síðasta verður lokið á næsta ári. Þá verður komin aðstaða fyrir tónlistarmenn við hlið sviðsins sjálfs. Einnig verður þá þakið tyrft svo það falli sem best að umhverfinu.

Hann segir enn fremur að undirbúningurinn fyrir Þjóðhátíðina gangi vel. „Reyndar er svo mikið af ferðamönnum í bænum að við þurftum að líta á dagatalið um síðustu helgi því það var engu líkara en hátíðin væri gengin í garð,“ segir hann.

Búið er að útvega lunda sem boðið verður upp á að fornum sið en hann kemur að norðan þar sem fátt er um fagurgogginn í Eyjum í ár.- jse




Fleiri fréttir

Sjá meira


×