Innlent

Mál kvennanna fyrnd og var því vísað frá

Gunnar hefur alfarið neitað því að hafa beitt konurnar kynferðislegu ofbeldi.
Gunnar hefur alfarið neitað því að hafa beitt konurnar kynferðislegu ofbeldi. Mynd/Anton
Rannsókn á máli Gunnars Þorsteinssonar, fyrrverandi forstöðumanns Krossins, var hætt sökum þess að meint kynferðisbrot hans eru fyrnd samkvæmt lögum.

Þetta kemur fram í bréfi aðstoðarsaksóknara, Sigríðar Hjaltested, til kvennanna sjö sem ásökuðu Gunnar um kynferðisbrot og lögðu fram formlegar kærur á hendur honum í mars síðastliðnum. Sigríður bendir konunum á að leita til fagráðs innanríkisráðuneytisins um kynferðisbrot.

Í tilkynningu frá konunum kemur fram að í öllum sjö tilfellum töldust málin fyrnd samkvæmt lagaramma kynferðisafbrota. Fyrningartími brotanna reyndist að lágmarki 5 ár en að hámarki 15 ár og ekkert meintra brota hafi fallið inn í þennan tímaramma.

„Niðurstaða um frávísun máls vegna fyrningar sannar ekki sakleysi þess sem á í hlut,“ segir í tilkynningunni. „Frávísun sem byggð er á tímaramma eingöngu er engin niðurstaða í sjálfu sér. Eina niðurstaðan hlýtur að vera sú að lög sem vernda gerendur kynferðisafbrota í ljósi tímans hljóta að vera gölluð.“

Konurnar ætla að leita til fagráðs ráðuneytisins í vikunni og eru tilbúnar með erindi þess efnis.

„Við stöndum við vitnisburði okkar, allar sem ein, enda tölum við sannleikann,“ segja konurnar. Sigríður Guðnadóttir, ein kvennanna og fyrrverandi mágkona Gunnars, segir málinu ekki lokið. „Við erum langt frá því að vera búnar,“ segir hún. „Við förum nú með þetta fyrir fagráðið og höldum ótrauðar áfram.“

- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×