Innlent

Taka ákvörðun um fangelsi

Steingrímur segir styttast í ákvörðun um hvernig fjármögnun nýs fangelsis verður háttað enda sé þörfin brýn.
Steingrímur segir styttast í ákvörðun um hvernig fjármögnun nýs fangelsis verður háttað enda sé þörfin brýn. Mynd/Anton
Fangelsismál verða til umræðu á ríkisstjórnarfundi í dag. Gögn fyrir útboð eru á lokastigi, bæði hvað varðar byggingu og fjármögnun. Eftir er hins vegar að taka ákvörðun um hvernig fjármögnun verður háttað.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur talað fyrir því að ríkisstjórnin fjármagni bygginguna, en um það hefur ekki náðst samstaða í ríkisstjórn.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir of mikið gert úr ágreiningi um málið. „Ég held að það séu allir sammála um það í ríkisstjórn að við eðlilegar aðstæður í ríkisbúskapnum – og ef ríkið væri rekið með afgangi – væri heppilegast að ríkið stæði sjálft fyrir framkvæmdinni. Veruleikinn er þessi og þess vegna höfum við reynt að leita leiða til að koma framkvæmdum og fjárfestingu af stað, án þess þó að það geri glímuna við ríkisfjármálin erfiðari, akkúrat þessi árin þegar hún er hvað hörðust.“

Steingrímur vísar til þess að til annarra aðila hafi verið leitað við fjármögnun á nýjum Landspítala og einnig hafi verið uppi hugmyndir um fjármögnun vegaframkvæmda með sértekjum eða vegtollum.

Hann segir miður að ekki hafi verið ráðist í framkvæmdina þegar betur áraði í ríkisbúskapnum, en nú styttist í ákvörðun. „Við munum ekki velta þessu máli lengi á undan okkur og höfum ekki gert. Tíminn fram á vorið fór í að undirbúa allt ef til útboðs kemur.“

- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×