Innlent

Um 9.500 greiða hátekjuskatt

Skuldir landsmanna vegna íbúðakaupa nema nú í fyrsta skipti meira en 50 prósentum af verðmæti eignanna, þrátt fyrir að einn af hverjum fjórum fasteignaeigendum skuldi ekkert í húsnæði sínu.
Skuldir landsmanna vegna íbúðakaupa nema nú í fyrsta skipti meira en 50 prósentum af verðmæti eignanna, þrátt fyrir að einn af hverjum fjórum fasteignaeigendum skuldi ekkert í húsnæði sínu. Mynd/GVA
Um 9.500 skattgreiðendur eru með tekjur yfir 680 þúsundum króna á mánuði og greiða því hátekjuskatt. Ríkissjóður hafði um 2,1 milljarð króna í tekjur af þessum hópi á síðasta ári samkvæmt samantekt ríkisskattstjóra vegna álagningar opinberra gjalda fyrir árið 2011.

Um 151 þúsund greiða tekjuskatt, sem greiddur er í þremur þrepum. Mikill meirihluti skattgreiðenda, 133 þúsund manns, er með tekjur sem falla í annað skattþrepið af þremur. Þar falla þeir sem eru með mánaðartekjur á bilinu 209 til 680 þúsund krónur.

Lítið hlutfall, um sex prósent þeirra sem greiða tekjuskatt, er með tekjur yfir 680 þúsundum og fellur því í efsta skattþrepið.

Auðlegðarskattur var nú lagður á í annað skipti. Hann er lagður á eignir umfram skuldir, og er miðað við eignir umfram 75 milljónir hjá einstaklingum en 100 milljónir hjá hjónum. Alls greiddu um 4.800 einstaklingar skattinn, samtals 4,8 milljarða króna. Eignir umfram skattleysismörkin voru að meðaltali um 67 milljónir króna.

Tekjur landsmanna af vinnu á síðasta ári voru um 812,4 milljarðar króna. Þessari upphæð var aflað af rúmlega 237 þúsund manns. Meðalmaðurinn aflaði því um 3,4 milljóna króna, eða um 283 þúsund á mánuði.

Í fyrra var heimilað að draga kostnað við viðhald af húsnæði frá tekjuskatti. Alls nýttu ríflega 18 þúsund fjölskyldur þann möguleika, og drógu samtals um 1,6 milljarða frá skattstofninum. Það gera tæplega 90 þúsund krónur að meðaltali á fjölskyldu.

- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×