Innlent

Fjórir skátar reknir fyrir kynferðisbrot gegn börnum

Mynd úr safni
Mynd úr safni
Forsvarsmenn Bandalags íslenskra skáta (BÍS) hafa rekið fjóra menn úr hreyfingunni á undanförnum árum eftir að upp komst að þeir höfðu beitt unga skáta kynferðisofbeldi. Elsta málið er um 30 ára og það nýjasta átti sér stað í fyrra.

Júlíus Aðalsteinsson, félagsmálastjóri BÍS, segir félagið hafa beitt sér fyrir því að vinna úr málum sem þessum eftir að mál kom upp hjá KFUM og KFUK árið 2003 þar sem starfsmaður félagsins var handtekinn fyrir vörslu barnakláms og staðinn að því að áreita börn kynferðislega í starfinu.

„Í framhaldinu af því beittum við okkur fyrir því innan æskulýðsráðs ríkisins hvernig taka ætti á svona málum," útskýrir Júlíus og bætir við að umræðan um kynferðisbrotin innan kirkjunnar hafi einnig orðið til þess að ákveðið hafi verið að setja á fót fagráð um meðferð kynferðisbrota innan skátahreyfingarinnar.

Fagráðið mun starfa óháð skátunum og segir Júlíus það mikilvægt í ljósi smæðar hreyfingarinnar, þar sem flestir annaðhvort þekkja eða kannast við þolendur eða gerendur. Með því telur Júlíus að trúverðugleiki þess aukist og komið sé í veg fyrir að persónuleg tengsl eigi sér stað.

Júlíus segir nauðgun ekki hafa komið við sögu í neinum brotanna, heldur var um að ræða óviðeigandi ummæli eða kynferðislega snertingu. Börnin voru oftar en ekki fleiri en eitt í hverju máli. Nýjasta tilvikið var í fyrra, þegar ungur maður var dæmdur fyrir að misnota tvo sjö ára drengi sem leiðbeinandi í skátabúðum.

Fulltrúar BÍS hafa átt einn fund með fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytisins um skipun fagráðs um meðferð kynferðisbrota innan skátahreyfingarinnar. Formleg beiðni frá BÍS til ráðuneytisins hefur þó enn ekki verið lögð fram.

Júlíus segir viðbúið að enn fleiri mál komi upp á yfirborðið eftir stofnun fagráðsins.

„Auðvitað vona ég ekki, en það er viðbúið," segir hann. „En við viljum alltaf setja barnið í fyrsta sæti. Ef einhver grunur um ofbeldi vaknar, þá er það okkar hlutverk að halda hlífiskildi yfir börnunum í okkar starfi."

- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×