Erlent

Herskip skutu á fólk í borginni Latakia

Á myndinni sjást brynvarðir bílar hersins fyrir utan hús í hverfinu al-Ramel.Fréttablaðið/AP
Á myndinni sjást brynvarðir bílar hersins fyrir utan hús í hverfinu al-Ramel.Fréttablaðið/AP
Sýrlensk herskip létu skotum rigna yfir hafnarborgina Latakia í gær og urðu í það minnsta nítján að bana. Árásinni var beint að andstæðingum sýrlenskra stjórnvalda sem staðið hafa fyrir mótmælum síðustu vikur.

Sýrlensk stjórnvöld hafa síðustu vikur ítrekað ráðist á mótmælendur en aukin harka hefur hlaupið í aðgerðirnar í ágúst. Nokkur hundruð manns létust í árásum í fyrstu viku mánaðarins segja mannúðarsamtök en ríkisstjórnir Vesturlanda hafa fordæmt aðgerðirnar. Auk árásar frá herskipunum réðust hermenn inn í hús í nokkrum hverfum í borginni í gær.

Árásinni í gær var aðallega beint að al-Ramel hverfinu í Latakia en þar hafa fjölmenn mótmæli farið fram gegn Bashar al-Assad, forseta landsins, síðustu vikur.

Bandarísk stjórnvöld kölluðu eftir viðskiptabanni á olíu og gas frá Sýrlandi í kjölfar árásarinnar. Sýrlensk stjórnvöld hafa hins vegar réttlætt þær með því að segja þeim beint gegn hryðjuverkahópum og glæpamönnum. - mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×