Innlent

Fleiri vilja í heimilislækningar

Ellefu læknar hafa verið ráðnir í sérnám í heilsugæslulækningum.
Ellefu læknar hafa verið ráðnir í sérnám í heilsugæslulækningum.
Ellefu læknar hafa verið ráðnir í sérnám í heilsugæslulækningum hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þeim gæti fjölgað enn frekar áður en námið hefst í lok mánaðarins því fleiri hafa sýnt því áhuga. Fyrir stunda tólf læknar sérnámið hér á landi.

Alma Eir Svavarsdóttir er kennslustjóri sérnámsins. Hún er ánægð með áhugann á náminu, ekki síst vegna þess að heimilislækna hefur skort á landinu undanfarin ár. Að hennar sögn þýða fleiri formlegar stöður í sérnáminu að hægt verði að gera námið agaðra og formfastara. Aukin aðsókn þýðir hins vegar einnig að meira fjármagn þurfi til að hægt sé að sinna náminu vel.

Sérnám þeirra tólf lækna sem fyrir stunda það er á vegum velferðarráðuneytisins. Nýju stöðurnar verða hins vegar fjármagnaðar af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Landspítalanum. Til þess að mæta kostnaðinum við stöðurnar var lausum stöðum sérfræðinga innan heilsugæslunnar breytt í sérnámsstöður.

Sérnám í heimilislækningum hefur verið í boði hér frá árinu 1995. Í upphafi voru stöðurnar tvær. Að sögn Ölmu er það byggt upp þannig að þrjú ár af fimm séu tekin hér á landi en tvö ár erlendis. Þó hafa verið gerðar undantekningar á þessu og allt sérnámið klárað hér á landi. „Námið er orðið það gott og komin nógu mikil reynsla, svo við treystum okkur í það.“

- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×