Innlent

Aldursforseti katta fæddur 17. júní 1989

Árin tuttugu og tvö eru orðin afar þung fyrir Öskubusku en henni finnst gott að láta þau hvíla í kjöltu Ebbu sinnar.
Árin tuttugu og tvö eru orðin afar þung fyrir Öskubusku en henni finnst gott að láta þau hvíla í kjöltu Ebbu sinnar. fréttablaðið/stefán
Öskubuska
Læðan Öskubuska er líklegast elsti kötturinn á landinu, en hún varð tuttugu og tveggja ára á þjóðhátíðardegi Íslendinga, 17. júní. Hjónin Höskuldur Stefánsson og Ebba Ólafsdóttir, sem hafa umsjón með Öskubusku, segja að Elli kerling sé vissulega farin að setja mark sitt á hana.

„Hún er gigtveik eins og ég, svo við erum hérna stynjandi báðar tvær á rigningardögum,“ segir Ebba. Hún segir Öskubusku vera óskaplega gæfan og góðan kött. Það hefur líka komið sér vel að hún gerði ekki eigendum sínum þann grikk að færa þeim mýs en þó vildi hún leggja sitt af mörkum til heimilislífsins. „Hún var vön að færa mér rakettustubba hingað heim, hún hefur örugglega haldið að ég gæti reykt þetta en hún er nú löngu hætt þessu.“

Þegar Öskubuska hafði heilsu til hagaði hún sér að vissu leyti frekar eins og hundur, sem löngum hefur borið titilinn besti vinur mannsins. „Hún fór alltaf með mér hérna í gamla daga, það gilti einu hvort ég var að fara út í Grímsbæ að kaupa inn, út í bókasafn eða í leikskólann að ná í krakkana, alltaf kom hún með. Svo var um daginn eins og þeir rynnu upp fyrir henni þessir gömlu göngutúrar því hún var komin langleiðina að leikskólanum. Annars er hún bara hérna í garðinum, blessunin.“

Þau hjón segjast ekki hafa neina einhlíta skýringu á langlífi Öskubusku en þó eru ýmsar getgátur á lofti. „Við létum hana bara gjóta einu sinni, þegar hún var tæplega árs gömul, og síðan ekki söguna meir. Dýralæknirinn segir að hún hafi hjarta á við miklu yngri dýr og að það sé kannski af því að hún var ekki alltaf gjótandi.“

Helga Finnsdóttir hefur stundað dýralækningar í þrjá áratugi og segir hún aldursforsetann í sínum kúnnahópi hafa verið 24 ára gamlan kött. Fréttablaðið leitaði líka til Dýraspítalans í Garðabæ og spurði um elstu ketti sem fengið hefðu meðhöndlun þar. Þar var Fríða nokkur efst á blaði en hún drapst árið 2008, þá tuttugu og eins árs að aldri. Eins hafði tvítugur köttur farið í skoðun til þeirra en hann fór yfir móðuna miklu áður en hann varð tuttugu og eins.

jse@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×