Innlent

Ekki minnst á embættismissi

Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson
„Ég þekki það ekki að nokkur maður hafi rætt um að Jón Bjarnason fari út úr ríkisstjórn,“ segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.

Í Morgunblaðinu í gær var því haldið fram að Jóni Bjarnasyni, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, hefði verið hótað embættismissi vegna ágreinings við Össur út af aðildarviðræðum Íslands og ESB, en ef Jóni yrði bolað úr ríkisstjórn með valdi gæti það þýtt að ríkisstjórnin missti meirihluta sinn á Alþingi.

Össur var því spurður hvort nokkuð væri til í þessum vangaveltum. Hann kannast ekkert við það en segir samskipti sín við Jón Bjarnason hafa verið „fullkomlega fagleg og vinsamleg“ þótt augljós skoðanaágreiningur sé uppi um ýmis mál.

„Við Jón erum með allt á hreinu og ég hef hvergi komið að slíkum umræðum,“ segir Össur.

Spurður um framgöngu Jóns í málinu, það er að landbúnaðarráðherra virðist meðvitað vera að tefja ríkisstjórnarmál, segir Össur: „Mér kemur ekki til hugar að Jón Bjarnason sé viljandi að reyna að koma í veg fyrir að það sé reynt að framkvæma samþykkt Alþingis.“- kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×