Innlent

Gagnrýnir verðtryggingarútreikninga

Þórólfur Matthíasson
Þórólfur Matthíasson
Útreikningar Hagsmunasamtaka heimilanna vegna kvörtunar samtakanna til Umboðsmanns Alþingis eru villandi þar sem gleymst hefur að núvirða greiðslurnar, segir Þórólfur Matthíasson, deildarforseti hagfræðideildar Háskóla Íslands.

Umboðsmaður Alþingis athugar nú hvort verðtrygging lána hafi um langa hríð verið reiknuð á rangan hátt í kjölfar kvörtunar frá Hagsmunasamtökum heimilanna. Umboðsmaðurinn hefur krafið Seðlabankann um skýringar á þeim reglum sem liggja að baki útreikningunum.

Í greinargerð frá Hagsmunasamtökum heimilanna, sem Magnús Ingi Erlendsson héraðsdómslögmaður skrifaði, eru færð fyrir því rök að ekki sé til lagaheimild fyrir því að verðbætur séu lagðar á höfuðstól lána heldur að einungis megi bæta verðbótum við greiðslur af láni.

Þá fylgir greinargerðinni dæmi þar sem reikniaðferðirnar tvær eru bornar saman og komist að þeirri niðurstöðu að sú leið að bæta verðbótum ofan á höfuðstól sé talsvert óhagstæðari en sú leið að bæta verðbótum við greiðslur.

„Gallinn við útreikninga Magnúsar er að hann áttar sig ekki á því að til að bera saman verðmæti afborgana jafnafborganaláns og kúlulánsins þarf hann að reikna allar afborganir á sama verðlagi,“ segir Þórólfur og bætir við að sé það gert sé verðmæti lánanna nákvæmlega það sama, enda eigi lánaform ekki að hafa áhrif á verðmæti afborgana. - mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×