Skoðun

Áfram leikskólakennarar!

Guðný Hrund Rúnarsdóttir skrifar
Börn eru blessun heimsins. Allt sem lýtur að velferð þeirra og lífshamingju hlýtur að koma okkur við.“ (Vigdís Finnbogadóttir). Börnin okkar eru það dýrmætasta sem við eigum og við viljum aðeins það besta fyrir þau. Leikskólakennarar og aðrir starfsmenn innan leikskólanna vinna mikið ábyrgðarstarf, það vitum við öll sem eigum börn. Leikskólar eru ekki geymslukassar fyrir börnin okkar þar sem markmiðið er að „geyma“ börnin meðan við foreldrar sinnum vinnu okkar.

Leikskólar eru ákveðið samfélag þar sem litlir einstaklingar ráða ríkjum en leikskólakennarar hafa ákveðna sérþekkingu á því hvernig byggja megi upp leikskólasamfélag þar sem þarfir barnanna eru hafðar í fyrirrúmi. Á leikskólum er unnið út frá hugmyndafræðilegum bakgrunni sem hver leikskóli vinnur út frá en börnin okkar fá að þroskast og dafna út frá leiknum.

Störf leikskólakennara eru mikilvæg, mjög mikilvæg. Við leggjum traust okkar á starfsmenn leikskólanna, við treystum þeim fyrir sólargeislunum í lífi okkar. Við vitum að það er unnið metnaðarfullt starf á leikskólunum en leikskólakennarar hafa menntað sig til þess að byggja upp kærleiksríkt leikskólasamfélag þar sem börnin okkar fá að þroskast og dafna í.

Verðmætin sem leikskólakennarar hafa í höndunum eru börnin okkar og því er þetta starf afskaplega dýrmætt. Verðmiðinn á starfinu er því miður ekki í samræmi við þá menntun sem starfið krefst og þá ábyrgð sem lögð er á herðar leikskólakennara og annarra starfsmanna innan leikskólanna. Ef starf snýst um peninga þá hækkar verðmiðinn á starfinu en ef ég hef barn í höndunum þá lækkar verðmiðinn.

Laun leikskólakennara eru til skammar, það er alveg ljóst. Þeir eiga langt í land með að fá þau laun sem samræmast þeirra menntun og ábyrgð. Núna eru þeir að berjast fyrir litlu skrefi í átt að því sem þeir eiga skilið að fá fyrir starf sitt. Ég styð leikskólakennara í baráttu sinni og ég vona að aðrir foreldrar geri slíkt hið sama því við vitum öll hvar verðmætin í samfélaginu er að finna.




Skoðun

Sjá meira


×