Skoðun

Á að leyfa kristniboð í skólum?

Ragnar Halldórsson skrifar
Á tímum vaxandi ofbeldis, tillitsleysis, eigingirni og sálarangistar er börnum og ungu fólki fátt mikilvægara en að kynnast hjartahlýju, umburðarlyndi, fyrirgefningu og náungakærleika. Og svo vill til að þetta eru hornsteinarnir í boðskap kristinnar trúar. Því mætti spyrja á móti: Hvers vegna vill sumt fólk meina börnum og ungu fólki aðgang að þessum boðskap? Hvers vegna er hann þyrnir í augum þeirra?

Kirkjan sem stofnunKannski er það kirkjunni sem stofnun að kenna. Kirkjan var og er vissulega íhaldssöm. Af og til rangsýn. Hún gleymir stundum eigin kjarna – orðum og boðskap Jesú Krists, sem fordæmdi engan. Sumum þykja einhverjir prestar stundum yfirlætisfullir. En presturinn er einn af söfnuðinum. Ekkert annað. Jafnvel þótt hann þiggi laun fyrir þjónustu sína. Og ófullkomleiki hans, yfirlæti, hégómi eða hroki er sá sami og okkar hinna sem sitjum úti í sal. Og hefur ekkert með boðskap Jesú Krists að gera nema til að staðfesta gildi hans. Sumir virðast halda að presturinn eða kirkjan hafi einkarétt á boðskap kristninnar frá Einkaleyfastofu. Auðvitað ekki. Við eigum hann öll jafnt. Og ef presturinn eða kirkjan sem stofnun hegða sér kjánalega eða ósiðlega er það fyrst og fremst vitnisburður um mannlegan breyskleika. Og allir skulu vera jafnir fyrir lögunum. Því hvað er kristin kirkja í raun? Hún er söfnuðurinn – andlegir afkomendur tólf lærisveina Krists. Og þeirra á meðal eru prestarnir og biskuparnir. Og kristin kirkja er og verður auðvitað aðeins góð og gild sem stofnun ef hún stendur vörð um kærleiksboðskap Jesú Krists, þótt hver og einn geti auðvitað tileinkað sér hann án hennar.

Þeir sem hafa bent á margvísleg rangindi kirkjunnar í gegnum aldirnar hafa oftast haft rétt fyrir sér. Því kirkjan hefur oft breytt gegn boðskap Jesú Krists, sem var hermaður kærleikans, róttækur byltingarmaður fyrir málstað hinna fátæku og fyrirlitnu og kannski fyrsti femínisti mannkynssögunnar. Jesús tók upp hanskann fyrir syndarana. Hann þvoði krjúpandi fætur fátæklinganna og betlaranna.

Boðskapur JesúHann boðaði ótakmarkaðan kærleika gagnvart þeim, sem okkur langar helst til að hata. Að elska þá, sem hata okkur. Það hefur enginn spámaður boðað hvorki fyrr né síðar. Og hvort sem okkur langar til að trúa á hann eða ekki þá er boðskapur hans uppbyggjandi, mannbætandi og snertir viðkvæmustu tilfinningar mannlegrar virðingar og kærleika gagnvart öðrum. Og fátt er hollara börnum og ungu fólki. „Háleitustu hugsjónir mennskunnar og dyggðanna“ sagði Dostoyevsky um kristnina. Og flestir hljóta að þroskast við að kynnast þessari setningu úr bæninni Faðir vor: „Fyrirgef oss vorar skuldir [syndir] svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum [þeim sem syndga gegn mér].“ Hér eru punktar frá Jesú sjálfum:

„Allt sem þér gjörið einum minna minnstu bræðra það gjörið þér mér. Komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig. Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrstur steini [num]. Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Og hér er tilvitnun í þessum anda úr Nýja Testamentinu, Kor, 13: „Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking, og þótt ég hefði svo takmarkslausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt.“

Saga frá götunniFyrir nokkrum árum var kunningi minn, sem er samkynhneigður, laminn af tveim vegfarendum seint um kvöld vegna útlits síns.

Þegar hann sagði mér frá þessu stakk ég upp á að hringja í lögregluna og kæra árásina.

„Nei, nei, ekki gera það“ sagði hann. „Nú?“ spurði ég forviða og hann svaraði: „Ég hef séð þetta gerast svo oft. Og það er alltaf sama sagan. Eftir eitt eða tvö ár eru þessir hommahatarar sjálfir farnir út úr skápnum og komnir í okkar hóp“. Því spyr ég: Skyldu þeir sem hatast við hugmyndir Jesú Krists um fyrirgefningu og kærleika og vilja alls ekki að íslensk börn fái að kynnast þessum boðskap, verða fallnir fyrir honum eftir eitt eða tvö ár?




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×