Skoðun

Til hamingju

Páll Stefánsson skrifar
Það var ánægjulegt að sjá 75.000 þúsund manns hlusta á sex tíma tónleika á hól í miðborg Tallinn á laugardagskvöldið. Og ekki vín á nokkrum manni. Tónleika sem enduðu á lagi Sinéad O"Connor, Nothing Compares 2 U, sem varð eins konar einkennislag sjálfsstæðisbaráttu Eista sem lauk með fullu sjálfstæði þeirra fyrir tuttugu árum.

Á miðnætti, eftir tóna írsku söngkonunnar, steig forseti Íslands á svið, og setti sérstakan Íslendingadag, til heiðurs þeirri þjóð sem gekk fyrst fram og viðurkenndi sjálfstæði Eistlands.

Það voru stórkostlegar móttökur, sem íslensku listamennirnir fengu síðan daginn eftir. Tónlist, hönnun, ljósmyndir, matur, alls staðar var fullt út úr dyrum, í dagskrá sem var öllum sem komu að skipulagningunni til mikils sóma. Og maður fann vel fyrir gríðarlegum velvilja til okkar Íslendinga frá Eistum, Þjóð sem hefur verið frjáls í aðeins tuttugu ár, en það er met, því nú hefur sjálfstæðið enst ári lengur en fyrra frelsið, sem varði einungis í nítján ár, frá 1920 til 1939.

Og fullveldið, sjálfstæðið er þeim ALLT. Þess vegna skildu þeir ekki spurningu mína um hvort vera þeirra í Evrópusambandinu skerði ekki þeirra nýfundna frelsi.

„Nei, veran í Evrópusambandinu er trygging fyrir því að við erum þjóð meðal þjóða. Það er hlustað á okkur, og við erum hluti af ákvarðanatöku og regluverki þjóða Evrópu.“

Það eru bara rúmir sjö mánuðir síðan þeir tóku upp evru. Sem hefur strax skilað sér í 18% aukningu á erlendum fjárfestingum í landinu.

„Nú erum við loksins með alvöru gjaldmiðil, sem býr til festu fyrir heimilin, ríkið og fyrirtækin í landinu.“

Til hamingju með sjálfstæðið kæru Eistar!




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×