Lífið

Grillað partí hjá Óla Geir

Óli Geir lofar rosalegu stuði á Ljósanæturballinu sem verður haldið í Stapanum á laugardagskvöld. fréttablaðið/anton
Óli Geir lofar rosalegu stuði á Ljósanæturballinu sem verður haldið í Stapanum á laugardagskvöld. fréttablaðið/anton
Ljósanæturball Óla Geirs verður hans stærsta til þessa. Í boði verða reykvélar, blöðrur, svaka hljóðkerfi og sjálfur Páll Óskar.

„Ég hef haldið mörg stór böll en ég held að það sé óhætt að segja að þetta verði það stærsta," segir tónleikahaldarinn Ólafur Geir Jónsson, betur þekktur sem Óli Geir.

Hann ætlar að halda risastórt ball á Ljósanótt í Reykjanesbæ á laugardagskvöld. Það verður í Stapanum og heitir einfaldlega Ljósanæturballið. Páll Óskar, Emmsjé Gauti, Úlfur Úlfur, Haffi Haff og fleiri koma fram, auk þess sem Óli sjálfur þeytir skífum í hliðarsal ásamt Sindra BM.

„Þetta verður alvöru. Það er rosa mikill spenningur í Keflavík og það eru allir að tala um að loksins sé eitthvað almennilegt að gerast á Ljósanótt," segir Óli Geir. „Það verður „sikk" hljóðkerfi, eitt það besta á landinu, og nóg af ljósum og reykvélum og blöðrum." Forsala miða fer fram í Gallerí Keflavík og í Skór.is í Kringlunni og Smáralind.

Spurður hvort uppákoman verði eitthvað í líkingu við Dirty Night-böllin hans með tilheyrandi undirfatasýningu ungra meyja og annarra djarfra atriða neitar hann því. „Fólk áttar sig ekki á hvað maður hefur haldið mikið af kvöldum fyrir alla aldurshópa. Menn gleypa alltaf það neikvæða. Þetta Dirty Night er bara eitt af tuttugu „konseptum" sem ég er með," segir hann.

Óli lofar flottri stemningu, þar sem eldri ballgestir í bland við yngri geti lyft sér upp eftir Ljósanóttina. Skortur hafi verið á stóru balli sem þessu því hingað til hafi fólk eftir miðnætti farið annað hvort í heimapartí eða á skemmtistaði í miðbæ Keflavíkur sem eru smærri í sniðum. „Ég og Palli [Páll Óskar] höfum haldið ball á Ljósanótt síðustu fjögur ár. Við höfum alltaf verið á skemmistöðum niðri í bæ og það hefur alltaf verið alveg grillað. Þannig að okkur langaði að fara með þetta nokkrum skrefum ofar og taka alvöru Nasa-ball eins og hann hefur verið með. Hann hefur aldrei verið með svoleiðis ball í Stapanum og ef það er einhver dagur á árinu til að gera þetta í Keflavík er þetta klárlega dagurinn."

Óli Geir hefur haft nóg að gera í sumar í skemmtanahaldinu og ferðast út um allt land með partíin sín. Hann ætlar hvergi að slaka á í haust. „Ég er að fara af stað með Smirnoff-túr í kringum landið. Haffi Haff er með mér í því," segir hann, en þeir félagar ætla að ferðast á tíu staði á landinu og gera allt vitlaust.freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.